Þingvallaferð
Á mánudaginn fór ég í útskriftarferð með leikskólanum. Förinni var heitið á Þingvelli, í grenjandi rigningu, og þar skoðuðum við m.a. Öxarárfoss, Almannagjá og Peningagjá þar sem allir fengu 10 kr. pening til að henda í gjánna og óska sér. Maður má ekki segja hvað maður óskar sér því þá rætist óskin ekki, útskýrði ég íbygginn fyrir mömmunni minni. Endað var í sumarbústað í Grímsnesinu þar sem við lékum okkur úti og grilluðum pylsur og fengum svala. Ferðin var mjög skemmtileg og Gunna deildarstjóri sagði að við hefðum öll verið til fyrirmyndar hvað varðar hegðun.
Nema hvað, í gær var mamma mín niðri í þvottahúsi að ganga frá þvotti og þvo meira. Ég var uppi og pabbi minn var eitthvað að stússast. Þegar mamma kemur upp finnur hún mig inni á baði með fullt baðkar af vatni, auk þess hafði ég náð mér í krukku sem pabbi geymir smápeninga í og var að búa mig undir að henda þeim í baðkarið. Þegar mamma mín spurði mig hvað ég væri að gera var svarið einfalt "Mér datt bara aðeins í hug að við gætum notað þetta fyrir svona peningagjá, þú veist til að óska okkur" - ég hef fengið margar verri hugmyndir að mati móður minnar.
1 Comments:
eg er alveg sammala mommu thinn Egill minn. god hugmynd - madur verdur ad gera eh til ad fleiri oskir raetist
Skrifa ummæli
<< Home