fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Fyrsti í rútínu

Það var spenntur lítill strákur sem vaknaði hérna í Lundi í morgun, borðaði morgunmat (af mjög skornum skammti) og hjólaði svo í leikskólann þar sem Leó beið spenntur eftir mér. Eitthvað varð ég nú minni við að koma þangað inn og það tók þó nokkra stund að dekstra mig inn á deild þar sem allir vinirnir biðu eftir mér. Leó kom fram á gang og knúsaði mig og passaði voða vel upp á mig. Þetta tók nú allt saman litla stund og ég var sæll og glaður þegar mamma mín fór ca. 5 seinna. Ég var auðvitað í nýja "Ant Bully" bolnum mínum sem pabbi gaf mér áður en ég fór og gaf Leó annan eins. Við verðum langflottustu töffararnir á Nicke greinilega.
Annars fannst mér soldið skrítið að vakna hérna í Lundi í morgun, var eins og ég vissi ekki almennilega hvernig ég ætti mér að vera. Mamma vonar nú samt að það taki ekki langan tíma að aðlaga mig rólegheitunum hérna í Lundi.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Sagostunden á morgun


Þá er sumarið á enda og við mamma á leiðinni í rigninguna í Svíþjóð. Það var svosem auðvitað að það færi að rigna um leið og við komum út en ég læt það ekki á mig fá. Ég fer í leikskólann á morgun og nú eru bæði Freyja og Leó byrjuð á minni deild. Það verður nú aldeilis gaman.
Þegar þetta er skrifað erum við mamma í Leifsstöð að bíða eftir flugvélinni okkar. Ég er nú bara orðinn soldið spenntur og hlakka til að koma til Lundar aftur. Fá hjólið mitt og komast á rétt ról eins og sagt er.
Ég er búinn að bralla ýmislegt frá því að mamma mín skrifaði síðast hérna inn. Mest er ég búinn að vera í Reykjavík hjá pabba mínum og Matti bróðir minn kom óvænt frá Akureyri og var með okkur alla helgina. Það urðu nú heldur en ekki fagnaðarfundir hjá okkur bræðrum. Saman fórum við í sund og bíó og ýmislegt fleira. Það er nú hlaupinn smá stórabróðurpúki í mig og ég er nú ekkert alltaf að bíða eftir Matta greyinu þegar hann biður mig. Mömmu minni líkar þetta illa og segir að ég eigi að vera góður við bróður minn. (Einmitt mamma! af því að þú varst alltaf svo góð við Árna frænda þegar þið voruð lítil!!!!). En eins og myndin sýnir erum við ofsalega góðir oftast nær. Þessi mynd er tekinn þegar Matti var að flytja til Akureyrar e. verslunarmannahelgina.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Rútínu er þörf

Jæja það er naumast að hún móðir mín er búin að vanrækja að segja frá mér síðan að við komum í sumarfrí til Íslands. Ég er náttúrulega búin að lifa eins og blóm í eggi. Alls staðar látið með mig þar sem ég kem og ég geng sjálfala þess á milli meðan mamma þrælar til að eiga í okkur og á í vetur (LÍN leggur frekar lítið af mörkum). Ég er nú ansi mikið farinn að vera í þörf fyrir rútínuna mína úr Kjemmanum og smá rólegheit. Þetta er aðeins of mikill vergangur fyrir lítinn pilt. En þetta reddast þegar við komum út. Hitti Leó og byrja á leikskólanum og svona. Það verður nú aldeilis ljúft.
Ég uni annars hag mínum ágætlega hérna á Hamri. Ég er mikill aðdáandi Kalla kokks og fylgi honum hvert fótmál þegar hann er á vakt. Um daginn var hann að leita sér að kokkajakka og ég var að sjálfsögðu nærstaddur til að hjálpa til:

Egill Orri: Kalli! Af hverju velurðu ekki þennan jakka (og benti á einn hvítan)
Kalli: já þú segir nokkuð Egill. Finnst þér að ég ætti að velja þennan?
Egill Orri: Já, þú ert mjög fínn í honum
Kalli: Takk fyrir það
Egill Orri: Ætlarðu ekki að spegla þig!?
Kalli: Jú ég verð að gera það, (svo gerði hann mikið úr því að spegla sig með tilþrifum)
Egill Orri [eftir örlitla þögn og með áhersluþunga] Ja-á - þú ert fallegur Kalli!

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Óþekktarpésinn hann ég

Jæja jæja jæja það er nú heldur betur farið að sjást á mér og heyrast að ég er ekki í rútínunni minni. Tók litla kastið áðan niðrá Shell þegar ég fékk ekki franskar kartöflur eins og ég óskaði mér heitast. Lagðist í gólfið þar til mamma mín þurfti á endanum að lyfta mér upp, setja mig undir handlegginn og rogast með mig út. Henni var nú ekki skemmt kellingunni. Þegar við komum í bílinn upphófst skammarræðan

Mamma: Egill Orri, þetta bara gengur ekki svona hegðun. Þú færð ekki að fara aftur á Shell fyrr en þú getur hagað þér almennilega.
Egill Orri: Víst fæ ég það, með afa
Mamma: Nei þú færð það ekki og það er útrætt mál
Egill Orri: Þá bara hleyp ég inn í bílinn til afa þegar hann er að fara á Shell
Mamma: Nei það verða skýr skilaboð til afa að hann fari ekki með þig á Shell
Egill Orri: [fullum hálsi]Ég bara ríf skilaboðin!

Mamma mín heldur að það verði nú heldur en ekki viðbrigði fyrir mig þegar afi & amma hætta með Shell - hvað geri ég litli ég þá?

föstudagur, ágúst 11, 2006

Uppeldisatriði?

Um daginn var ég úti hjóla. Ég er ofsalega duglegur að hjóla og fór í langan hjólreiðatúr, upp stórar brekkur og allt hvað eina. Svo kom pabbi að sækja mig á bílnum og þá átti hjólið að fara í skottið. Ég hins vegar lagði það bara frá mér þar sem ég stóð og kallaði til mömmu "taktu hjólið mamma". Mömmu fannst þetta nú ekki mjög fallega beðið "Egill Orri, svona biður maður ekki, hvað segir maður". Ég hugsaði mig pínustund um og sagði svo "Ta cyckeln!". Ekki alveg það sem mamma mín átti við.
~ ~ ~ ~ ~ ~
Í dag er ég að flækjast upp á hóteli með mömmu og bíða eftir því að komast í bæinn til ömmu og afa sem ætla að taka mig með sér í hjólhýsið um helgina. Upphaflega stóð til að afi sækti mig en til sparnaðar á umhverfi, bensíni og bílsliti var ákveðið að ég fengi far með Halldóri ömmubróður mínum. Þetta leist mér nú mátulega á og heimtaði að afi kæmi eins og um var samið. Mamma mín sagði að ég ætti tvo kosti a) fara með Halldóri frænda eða b) labba í bæinn. "LABBA Í GÖNGIN ÞÁ" sagði ég aldeilis forviða með hendur á mjöðmum. "Ertu vitlaus kona?"

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Det var så länge sen

Nú finnst mömmu minni bara heil eilífð síðan hún sá mig síðast og samt var ég nú hérna hjá henni seinast á föstudagskvöldið. Meira hvað hún er orðin rugluð kerlingin. Pabbi fór sko með mig og Matta í kotið til ömmu og afa í nýja flotta hjólhýsið. Algjört slot og eitthvað grunar mömmu nú að hafi verið dekrað við okkur þar. Auðvitað var samt grenjandi rigning svo að við máttum leika í pollagöllunum en það hefur nú eflaust ekki komið að sök. Í gærkvöldi hringdi ég svo í mömmuna mína til að segja henni "mamma! ég elska þig mjög mjög mikið - ekki gleyma því... ha!"
Nei hún mamma gleymir því nú ekki sko - lítil hætta á því.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Bræðralag

Í dag er Matti bróðir minn búinn að vera í heimsókn hérna í Borgarnesi og það er búið að vera mikið stuð á okkur bræðrunum. Við erum mestmegnis búnir að vera hérna uppi á hóteli og hamast hér og leika okkur. Byggja tjald úr barstólunum og 'þrífa' heitu pottana og svona. Svo erum við soldið skotnir í henni Sofie sem vinnur hérna hjá afa Hirti. Dáldið svona að sjarmera hana líka. Við erum samt mjög fyndnir með það að við erum algjörir klögustrákar. Ef eitthvað gerist eða fer úrskeiðis þá er það eins og forritað í okkur sjálfkrafa að kenna hinum um "Matti gerði það" eða "Egill gerði það" eða "Egill/Matti segir að hann ætli að gera þetta/hitt" og svo framvegis. Sennilega er þetta þó eitthvað sem fylgir bara þessum aldri og vex vonandi af okkur :)

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Bilað blogg?

Mamma mín var sko samviskusamlega búin að skrá niður síðustu afrek mín en hallæris forritið neitaði að 'publisha' síðuna og af því hvað hún er sárþjáð af gleymsku og alzheimar á háu stigi þá man hún ekkert hvað það var. En ég er nú þrátt fyrir það hress og sprækur og er búinn að koma víða við síðan mamma skrifaði (þar)síðast. Ég er til dæmis búinn að fara alla leið til Dalvíkur (og Akureyrar) á ættarmót. Það var nú heldur betur gaman og ég fékk að sofa í fellihýsi með afa og ömmu og allt. Ég fór sko á undan með þeim og mamma mín kom ekki fyrr en á föstudeginum. Ég hringdi nokkrum sinnum í hana og sagði henni hvað væri að gerast. Á föstudeginum hafði ég þó nokkrar áhyggjur:
Egill Orri: Mamma, VEIST þú hvar Akureyri er? Kanntu að keyra þangað?
Mamma: Já ástin mín, mamma veit það alveg
Egill Orri: OKEI, þú veist hvar Bónus er? Við erum sko þar, fast ekki inn i í Bónus-búðinni men í bakaríinu sem er inni í Bónus, við hliðina á Bónus búðinni.
Ég er að borða kleinuhring! [bætti ég svo við til upplýsingar]