fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Matti bróðir ....

... hringdi í okkur í kvöld. Fyrst talaði ég við hann, svo pabbi og svo mamma.

Matti: Hvað ertu að gera?
Sigrún: Ég er að elda
Matti: Já, pabbi var búinn að segja mér það
Sigrún: En þú, hvað ert þú að gera?
Matti: Ég er í leik
Sigrún: Já er það, en nú er Egill í fríi á morgun í skólanum
Matti: Er það, komið þá til Akureyrar .... plíííííííís
Sigrún: Já það væri gaman, en það er nú svolítið langt í burtu
Matti: En þið takið bara flugvél
Sigrún: En ég þarf að fara til læknis
Matti: Það er læknir á Akureyri
Sigrún: Já er það?
Matti: Já - hann er ofsa góður

Maður lætur nú ekkert kveða sig í kútinn svo auðveldlega.

föstudagur, nóvember 14, 2008

Góð ábending

Eftirfarandi samtal átti sér stað á milli okkar mæðgina í fyrradag.

Egill Orri: "Mamma, er Davíð Oddsson vondur maður?"
Mamma: "Nei ástin mín, hann er ekki vondur maður. Hann er samt ekkert sérstaklega góður seðlabankastjóri"

[smá umhugsun]

Egill Orri: "En mamma! það eru allir góðir í einhverju"


Hárrétt hjá þessari elsku.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Þjóðfélagsumræðan

Við fjölskyldan fórum á Pizza Hut um daginn. Ég mátti velja hvert við fórum. Foreldrum mínum blöskraði bæði gæði matarins sem og verðið sem var vægast sagt út í hött. 5.500 kr. fyrir pizzu og gos fyrir þrjá.
Nema hvað, móður minni hefur verið tíðrætt um þessa rányrkju og í gær þegar við keyrðum framhjá Pizza Hut varð henni að orði að hún færi nú ekki aftur þangað í bráð.
Egill Orri: "Jú! ég vil fara þangað aftur, þetta var góð pizza"
Mamma: "Nei, hún var vond og hræðilega dýr. 5.500 kr. er mjög mikið fyrir svona ruslmat"
Egill Orri: "Mamma! þú ert bara að segja þetta af því það er kreppa"
Þó maður sé bara 7 ára er maður nú enginn asni.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Nöfn á litlu systur

Þegar mér drepleiddist í gær fékk pabbi mér það verkefni að skrifa niður 5 nöfn sem mér finnast falleg og mér fyndist að litla systir ætti að bera.
1. María
2. Rósa
3. Hrefna
4. Anna
5. Brynja
Frekar "beisic" og falleg nöfn fannst mömmu minni.

Stolt mamma

Mamma mín var bókstaflega að springa úr stolti í gær þegar hún las umsögnina mína. Það verður nefnilega að viðurkennast að hún hefur ekkert alltaf verið sú allra besta í bekknum. Ég á stundum svolítið erfitt með að vanda mig og fylgja fyrirmælum svo dæmi séu tekin.
En í þetta sinn var ég nær eingöngu með "Ágætt" eða í 9 liðum af 11 og hinir tveir voru "Gott". Mamma var voðalega glöð að sjá þetta og í kvöld fæ ég ís í eftirmat fyrir að vera svona duglegur að bæta mig.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Þetta er Egill Orri sem talar...

Mamma sagði mér um daginnn að nú geti litla systir greint mismunandi raddir og hljóð utan við kúluna. Þetta finnst mér stórsniðugt. Ég bera bumbuna á mömmu og tala inn um naflann á henni "Halllllóóóó - þetta er Egill Orri, stóri bróðir þinn sem talar"