föstudagur, september 26, 2008

Föstudagskósíkvöld

Mamma mín hugsaði sér gott til glóðarinnar að eiga kósíkvöld með stráknum sínum í kvöld. Við bara tvö ein heima (pabbi úti á landi að vinna). Mamma var sveitt og þreytt eftir vinnuna og stakk upp á því (í símtali fyrr í dag) að við færum í sund þegar hún kæmi heim.
Mamma kom heim um kl. 17 - þá mætti henni lítill piltur sem benti út um gluggann og sagði "mamma, ég fer ekki í sund í þessu vonda veðri, það er alveg ljóst"

föstudagur, september 19, 2008

Loksins... loksins

... er hann Matti minn kominn.


Við vorum ekkert smá flottir bræður í morgun þegar mamma kom niður vorum við búnir að græja morgunmatinn sjálfir (og meira að segja búnir að brytja banana út í súrmjólkina) og það ÁN þess að rústa eldhúsinu. Svooo stórir strákar!


Svo var ég nú bara sendur í skólann og Matti fékk að vera heima hjá afa Villa. Ég var nú frekar abbó - það verður að viðurkennast.

þriðjudagur, september 16, 2008

Skagamótið

Egill Orri: mamma, hvenær fer ég á Skagamótið?
Mamma: Næsta sumar ástin mín
Egill Orri: Verður þá litla barnið komið?
Mamma: Já þá muntu eiga litla systur
Egill Orri: Já og hún verður að vera dugleg að sitja í stúkunni og hrópa 'Áfram Fylkir'
Mamma: Það er ólíkegt, hún verður ennþá svo lítil að hún kann ekkert að tala
Egill Orri: Okey, en ef við bara erum hörð og segjum henni á hverjum degi "þú verður að segja Áfram Fylkir" þá kannski lærir hún það.

... it could happen! :)

mánudagur, september 15, 2008

Barnið í bumbunni hennar mömmu ...


... er stelpa. Eða svo sagði ljósmóðirin amk við mömmu & pabba í morgun.
Spurning hvað okkur bræðrum mun finnast um það!

fimmtudagur, september 11, 2008

Réttir

Á morgun fæ ég að fara í réttirnar með Hirti Snæ frænda mínum. Það verður nú fjör. Fór líka í fyrra og skemmti mér prýðilega. Pabbi verður líka á svæðinu en hann ætlar að ríða á móti smölunum með fólkinu frá Syðra-Langholti. Mamma verður hins vegar að vera í vinnunni og missir af öllu fjörinu (... eins og alltaf!) en ætlar að koma í Hrepphóla annað kvöld og fá sér kjötsúpu.


Hér er ég í fyrra að hjálpa til við að ná í Hrepphólaféð.
Ma'r kann nú á þessu tökin! :)

laugardagur, september 06, 2008

Hvað kostar þetta?

Í dag eftir Haustmót KSÍ var farið niðrí bæ að skoða á mig íþróttaföt. Á leðinni kom til tals að ég fengi nýja gervigrasskó fyrir æfingarnar í haust(vetur). Mig langaði mest í einhverja Ronaldiniho skó sem eru víst það heitasta í dag. Mamma sagðist nú ekki vera til í að borga hvað sem er fyrir þá en vissulega væri í lagi að skoða þá.

Egill Orri: Mamma, þeir eru hundódýrir! Kosta ekki mikið.
Mamma: Ástin mín, þú ert nú ekki með besta verðskynið sko.

Egill Orri: Hvað er verðskyn?


.... I rest my case!