föstudagur, apríl 17, 2009

Af lestri og hræðslu

Ég fékk bókina um Njálssögu í jólagjöf frá Bjarka vini mínum (myndskreytta, stytta barnaútgáfu). Þegar við vorum á leiðinni í bústaðinn um páskana var mamma að lesa bókina fyrir okkur þegar heyrðist úr aftursætinu

Egill Orri: Mamma, geturðu ekki hætt að lesa þessa bók?
Mamma: Jú jú, er hún ekki skemmtileg?
Egill Orri: Nei, ég er svo hræddur við hana (innskot; enda full af morðum og drápum)

Í dag vorum við svo að keyra heim þegar ég sagði við mömmu.

Egill Orri: Mamma! Gettu hvaða bók ég var að lesa daglegum lestri í dag?
Mamma: Ég veit það ekki
Egill Orri: Hérna er vísbending, ég á hana heima.

Mamma giskaði á fullt af bókum sem ég á en gat ekki upp á þeirri réttu

Egill Orri: Ég var að lesa Njálssögu
Mamma: Nú! Ég hélt að þér fyndist hún hræðileg, þú varst svo hræddur við hana.
Egill Orri: En mamma, þú veist að ég les ekkert svo vel, ég les bara svona aðra hverja línu svo ég las ekkert þetta hræðilega.

Já maður á sko svar við öllu!

miðvikudagur, apríl 15, 2009

Misskilningur

Það var fyrsti dagurinn eftir páskafrí í dag. Ég var bæði leiður og spenntur þegar ég fór í skólann í morgun. Leiður yfir því að hún Kristín væri farin í fæðingarorlof en soldið spenntur að hún Edda Júlía væri komin til að kenna okkur.

Egill Orri; Mamma, ég sé til hvort ég get verið með í leikfiminni í dag, út af því þú manst, ég er með sárið af því að ég flæktist í þarna, þarna .... vírusnum.

Mamma; Gaddavírnum?

Egill Orri; já einmitt!

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Stórslys

Ég fékk að fara með Leó besta vini upp í bústað til ömmu hans í kvöld. Þvílíkt stuð! Bústaðurinn er í Skorradal og þar er stórt leiksvæði til að ærslast um á. Sem við og gerðum, Leó og ég og frændsystkini hans. Við hlupum um og skemmtum okkur vel. En þá gerðist það. Ég sá skrítna girðingu sem ég ætlaði rétt sem snöggvast að henda mér yfir þegar *úpps* ég sat skyndilega fastur. Þetta var sko nefnilega svona gaddavír. Ég kom því heim með buxurnar í henglum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og þó nokkur sár og skrámur á fótleggjunum.
En ég var þvílík hetja og grét ekkert sagði Katrín mamma hans Leós.
Þegar ég var kominn upp í rúm játaði ég þó fyrir mömmu að ég hefði grátið smá, en bara af því að ég vissi ekki hvað þetta var.
Þannig að nú er ég reynslunni og nokkrum plástrum ríkari.

sunnudagur, apríl 05, 2009

Með hjartað á réttum stað

Þegar mamma kom að sækja mig í skólaselið á föstudaginn fékk hún að heyra að maður yrði að passa sig að taka öll fötin sín með sér úr skólanum þann daginn, annars yrðu þau gefin í Rauða Krossinn.

Egill Orri: Mamma! Ég ætla að skilja eitthvað eftir af því að mig langar svo að hjálpa Rauða Krossinum.

Þó mamma hafi nú ekki verið yfir sig hrifin af þeirri hugmynd þá fannst henni vissulega hugsunin falleg. Enda er Egill Orri oftast með hjartað á réttum stað.

****************

Annars var nú eiginlega hálfgerður sorgardagur í bekknum á föstudaginn þegar kennarinn okkar hún Kristín kvaddi en hún er að fara í fæðingarorlof. Bekkurinn færði henni blóm og bangsa handa litla stráknum hennar sem fer um það bil að koma í heiminn. Kristín fór nú bara hreinlega að gráta við þetta og þá opnuðust flóðgáttirnar hjá ýmsum litlum hjörtum í bekknum svo úr varð hálfgerður grátkór. Það kemur samt góð kona í staðinn, hún Edda Júlía og svo kemur Kristín aftur í fjórða bekk.