föstudagur, mars 28, 2008

Laxakvísl

Jæja ég fór með mömmu og pabba að skoða nýja húsið okkar í gær (Nei Inga frænka, fjármögnunin er ekki ennþá frágengin). Það var rosalega gaman. Helga bekkjarsystir mín og vinkona býr sko á nr. 8 (sem er fjórum húsum til hægri við okkar) og við fórum strax að leika okkur. Svo búa líka fleiri krakkar úr bekknum mínum í götunni svo ekki sé minnst á frændsystkini Leós sem búa á nr. 20 og svo Leó sjálfur ekki langt undan í Árkvörninni.
Mamma mín er voðalega spennt og fegin að vera að flytja í hverfið og sér strax hvað þetta verður miklu skemmtilegra fyrir mig að hafa svona marga krakka til að leika við.

sunnudagur, mars 23, 2008

Páskabíltúr

Á föstudaginn langa fórum við bræður í bíltúr um Borgarfjörðinn. Það var gaman og við komum víða við. Við fórum m.a. að Deildartunguhver sem amma sagði okkur að væri vatnsmesti hver í Evrópu og úr honum koma 180 lítrar af 97°C heitu vatni á hverri sekúndu!! Það fannst okkur mikið. Ennþá magnaðra fannst okkur að allt þetta heita vatn skyldi vera sett í riiiiiiiisalanga leiðslu og sent alla leið til Borgarness og Akraness til að hita þar upp húsin.


Og vitiði bara hvað? Amma Unnur tók með egg og við SUÐUM ÞAU Í HVERNUM! og svo borðuðum við þau. Þett fannst okkur sko merkilegt.
Hérna eru eggin að sjóða ...








.... og hér erum við að taka utan af þeim

... og svo borða með bestu lyst :)
Það kom reyndar fyrir að mamma missti lúffuna sína í hverinn þegar hún var að fiska upp eggin. Hún flaut hratt niður strauminn og inn í affallsrör sem þarna var og endaði þar með sína ævidaga - amk sem lúffa. Við höfðum af þessu töluverðar áhyggjur og töluðum mikið og lengi um lúffuna og tókum nærri okkur að mömmu yrði núna svo kalt á annarri hendinni. - (mömmu fannst þetta mjög skrítið í ljósi þess að okkur virðist nákvæmlega sama þegar við týnum húfum og vettlingum í tugatali) - Fundum það svo út að lúffan myndi náttúrulega koma út um hitavatnsleiðsluna í Borgarnesi og hlógum mikið að því að kannski kæmi hún upp í heita pottinum á hótelinu hans afa.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Ég er líka á lífi

Hér sitjum við bræður á hótel ömmu og höfum það nú frekar gott. Von er á ömmu Gróu og afa Villa úr Reykjavík til að það sé nú örugglega einhver til að dekra okkur meðan afi Hjörtur og amma Unnur þurfa að vinna.
Það var nú ekki leiðinlegt hjá okkur í gær þegar enginn gestur var á langa ganginum og við gátum spilað fótbolta inni. Enn bættist í gleðina þegar Bjarki og Margrét Íris komu við á leiðinni norður og Hjörtur Snær frændi og Stebbi frændi hans voru líka. 6 krakkar á löngum gangi þar sem mátti hlaupa og ærslast að vild. Þvílík hamingja.