sunnudagur, júlí 29, 2007

Tannlaus greyið

Ég er búinn að missa fyrstu tönnina. Það gerðist síðasta daginn á leikjanámskeiðinu hjá Fylki og ég var nú heldur betur stoltur. Það gekk þó ekki stóráfallalaust fyrir sig að koma tönninni heim. Hún fór nefnilega óvart í ruslið uppi í Fylkishöll og það var heldur betur sorgmæddur lítill piltur sem áttaði sig á því að tönnin góða hafði orðið eftir þegar amma & afi komu að sækja mig. Það var ekkert annað að gera fyrir afa Villa að keyra mig aftur upp í Fylki og leita að tönninni. Þar voru ræstingakonurnar að klára að ganga frá en voru allar af vilja gerðar að leggja mér lið í leitinni. Og með orðum mínum sjálfs - "og hvað haldiði, þegar við fórum út í ruslagám og opnuðum ruslapokann var tönnin það fyrsta sem blasti við".

*-*-*-*

Ég setti hana svo vitanlega undir koddann og tannálfurinn var heldur betur gjafmildur og gaf mér heilar 500 krónur fyrir tönnina (sem ég fann svo ofaní krukku í eldhúsinu hjá mömmu, mér til nokkurrar furðu..........) Mamma sagði að líklega hefði tannálfurinn viljað að ég myndi eiga hana til minningar þar sem þetta var fyrsta tönnin sem ég missti.... hmmm ég virtist kaupa þá skýringu.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Matti loksins kominn

Æi hvað ég var nú glaður í gær þegar Matti bróðir kom LOKSINS til mín og ætlar að vera í tvær vikur. Á morgun förum við saman á íþróttanámskeiðið hjá Fylki og svo ætlum við fjölskyldan að fara í laaaaanga útilegu. Vonandi verður nú áfram sól og blíða svo við getum verið sem mest úti.
Um helgina erum við búnir að fara í Borgarnes til afa & ömmu og spila golf og keyra golfbílinn. Við erum nú heldur orðnir heimaríkir á hótelinu og pabbi greip okkur þar sem við vorum búnir að ná okkur í lykil að nokkrum herbergjum og vorum á góðri leið með að ganga inn á þá gesti sem þar voru. Pabbi og mamma voru nú heldur betur EKKI sátt og við vorum settir í straff inn í herbergi.
Þegar þetta er skrifað er klukkan að verða hálftólf og við erum ennþá vakandi inni í herbergi. Það er nú bara með ólíkindum hvað við getum vakað lengi.......

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Mömmur vita allt

Mamma mín er þreytt í hausnum í dag og ekki í besta skapi satt best að segja. Hún hefur eiginlega enga orku til að vera að halda uppi samræðum við forvitna litla pilta. Engu að síður finnst mér nauðsynlegt að fá skýr svör um það hvort sé sterkara, ljón eða hýena. Mamma mín segist ekki vita það.
"En þú sagðist vita allt og þá veistu þetta líka!"
Hver segir að börn hlusti ekki þegar maður er að tala við þau!!

laugardagur, júlí 07, 2007

ég FER EKKI...

í skyrtuboli. Skyrtubolir eru semsagt pólóbolir/kragabolir allt eftir því hvað fólk vill kalla þá. Mér er alveg sama, ég FER EKKI í skyrtuboli. Sem er svolítið slæmt í ljósi þess hvað móðir mín er dugleg að kaupa á mig svoleiðis flíkur - henni finnast litlir drengir í skyrtubolum nefnilega óskaplega sætir. Um daginn vorum við mamma að keyra og skyndilega segi ég í óspurðum fréttum "mamma! ég ætla bara að fara í skyrtubol á jólunum sko" - "af því að þeir eiga að vera spariföt" - "þegar ég vakna um jólin þá fer ég bara beeeeint í skyrtubol og verð voðalega fínn" - "OKEY mamma?"
Núna finnst mér líka vissara að nefna þetta á morgnana um leið og ég vakna "Pabbi/mamma, þú manst að ég fer bara í skyrtubol á jólunum" -

mánudagur, júlí 02, 2007

Afmælispilturinn ég







Í dag á ég afmæli og ótrúlegt en satt er ég orðinn heillra sex ára (eða verð það kl. 19:33 í kvöld). Mömmu minni finnst þetta satt best að segja ótrúlegt enda finnst henni ég eiginlega vera bara nýfæddur. Ég byrjaði daginn á því að rukka mömmu um söguna um þegar ég fæddist og ég þreytist seint á að heyra hana. Finnst alltaf jafnfyndið að ömmu Unni hafi fundist mamma mín hafa verið algjör ótemja og öskrað eins og stunginn grís þegar ég var alveg að fara að fæðast. Amma hélt nefnilega að ég myndi ekki fæðast svona fljótt & hratt eins og ég gerði. Ég bókstaflega spýttist í heiminn.
Í tilefni dagsins fékk ég að fara með frostpinna í leikskólann til að gefa öllum á grænu deildinni og í kvöld koma amma Gróa & afi Villi í kaffi og jafnvel Leó vinur minn líka. Matti þarf því miður aftur til Akureyrar og missir því af gleðinni í þetta sinn.