miðvikudagur, september 28, 2005

Myndir

Hæ hæ,

Nú er mamma mín búin að setja inn fullt af myndum, sumar frá því að við fluttum út (t.d. fleiri 'before' myndir af íbúðinni okkar) en líka frá því í sumar. Endilega smellið á linkinn hérna til vinstri.

Sænskan

Ég er orðinn voðalega duglegur að fara í leikskólann og er eiginlega alveg hættur að væla þegar mamma mín fer. Fóstrurnar segja að ég virðst skilja fullt í sænskunni en ég tala nú ekki mikið. Segist samt sjálfur vera farin að tala útlensku og nota frasann 'tack så mycket' (kærar þakkir)óspart enda er það svona það mesta sem ég segi, stundum segi ég líka 'var så god' (gjörðu svo vel). Uppáhaldsfóstran mín er Jennie en hún er hópstjórinn minn og ég sit við matarborðið hennar í hádeginu. Hún er ofsalega sæt með sítt ljóst hár og er alveg eins og prinsessa finnst mér. Svo er hún alltaf svo góð við mig.
En það var soldið fyndið í gær þegar við mamma vorum að fara heim og ég var að segja bless við hana Anniku sem vinnur líka á deildinni minni. Þá sagði ég 'bless og takk í dag' en mamma sem er alltaf að hvetja mig til að æfa sænskuna sagði mér að ég yrði að segja á sænsku takk í dag. Þá sagði ég 'á sænsku takk í dag'. Til hvers að vera að flækja málið?

miðvikudagur, september 21, 2005

Út yfir endimörk alheeeeeeeimsins

Fékk að fara heim til Leós i dag að leika. Hann er sko vinur minn hann Leó og við erum ótrúlega góðir saman. Þegar ég kom var Leó komin í Batman búninginn sinn svo ég fékk að vera Bósi ljósár sem er soldið uppáhalds núna svo það var ofsalega gaman. Búin að horfa á Toy Story svona miljón sinnum og stend núna uppi á öllu sem ég get prílað á, rétti út hendurnar og hrópa "út yfir endimörk aaaaaaaaaaaaalheimsins" áður en ég stekk niður. Leó á svo mikið af svona búningum og okkur finnst ekkert skemmtilegra en að leika okkur í þeim. Vildi ekkert koma heim en mamma lokkaði mig með loforði um að það biði mín pakki frá Íslandi heima. Sem var satt. Amma Gróa mín yndislega hafði sent mér Cocoa Puffs OG bókina um Karíus og Baktus. Ég var nú ekki lítið ánægður með hana ömmu mína þegar ég sá þetta. Mamma, besta stelpan mín í öllum heiminum [hey þetta er satt, hann sagði það sjálfur] leyfði mér meira að segja að fá eina skál eftir kvöldmatinn. Nammi namm.

þriðjudagur, september 20, 2005

Out of the mouth of babes

ég kom nú móður minni til að hlæja áðan. Við erum nefnilega að vinna í því að ég sofi í mínu herbergi í mínu rúmi, nokkuð sem ég er nú ekkert allt of hrifin af.
Í gærkvöldi lá mamma með mér inni í herbergi og var að lesa fyrir mig og ég spurði hvort ég mætti ekki sofna í hennar rúmi sem ég mátti ekki og mamma útskýrði fyrir mér að ég mætti það ekki því að ég væri svo stór strákur og stórir strákar svæfu í sínu eigin rúmi. Mér fannst þetta nú óþarfa níska í móður minni og benti henni á að hennar rúm væri nú töluvert stærra en mitt og að það væri nóg pláss fyrir okkur bæði þar. Þá kom nú mamma með heldur ógnvekjandi skýringu og byrjaði að tala um einhvern kall sem hún ætlaði kannski einhvern tíma að eignast sem myndi þá vilja sofa í rúminu hennar. Ég sá nú alla vankanta á þessu og stakk upp á ýmiss konar útfærslum sem leyfði okkur öllum þremur að sofa í mömmu rúmi en hún var einhvern veginn alveg harðákveðinn í því að ég ætti að sofa í mínu rúmi svo ég gafst upp og fór að sofa.
Auðvitað hélt mamma að ég væri þar með búinn að gleyma þessu samtali [hún var allavegna búin að því] en svo í kvöld þegar kominn var háttatími sagði ég upp úr þurru
'Mamma, þú þarft ekki að eignast neinn kall, þú átt mig' ..... þögn [er hún ekki að hlusta á mig]
'MAMMA, geeeeeeeeeeeeeeerðu það eeeeeeeeeekki eignast kall' ... þá hló mamma bara og teygði sig í tölvuna sína 'Mamma, ertu að fara að gá hverjum þú átt að giftast?'
Æi ef lífið væri nú svona einfalt :-)

föstudagur, september 16, 2005

Kjútt

Mamma: Egill, þú ert besti strákurinn minn

Egill Orri: og þú ert besta stelpan mín mamma

miðvikudagur, september 14, 2005

Busy busy day

Vá hvað ég er búin að eiga skemmtilegan dag. Byrjaði auðvitað á því að fara í leikskólann minn og leika mér við alla vini mína á Nicke Nyfiken. Fóstrurnar mínar heita Caiza, Annika, Cissi og Jennie. Þær eru allar rosalega góðar en ég er mest hrifin af henni Jennie sem er hópstjórinn minn og er með alveg rosalega fallegt sítt hár. Hún sagði mömmu að mér finnist ofsalega gott að knúsa hana og kyssa.

Eftir leikskóla fékk ég að fara heim með Birtu vinkonu minni að leika því mamma var fara á málþing niðri í skóla. Birta á heima í 'þrjúunni' sem er næsti garður við mig og við skemmtun okkur rosalega vel. Þegar mamma kom að sækja mig var komin tími til að fara í næsta hús sem var í mat til Tómasar vinar míns sem var voðalega spenntur að fá mig í heimsókn og við lékum okkur mikið saman og við fengum rosalega góðan mat hjá mömmu hans.

Núna er ég komin heim og steinsofnaður í mömmu rúmi. Bíð spenntur eftir ömmu og afa sem koma í heimsókn á morgun.

sunnudagur, september 11, 2005

Sverige

Aaargh mamma var búin að skrifa langt blogg en þá auðvitað fraus síðan og neitaði að vista færsluna... bjakk

meira fljótt