þriðjudagur, mars 29, 2005

Leikdagur

Aumingja ég að eiga svona veika og pirraða mömmu. Það verður nú að segjast ég hef aðeins fengið að kenna á pirringi móður minnar í dag. Ég var nú samt bara ósköp góður. Fór nokkurn veginn þegjandi og hljóðalaust í leikskólann með loforði um að Jóhanna Katrín vinkona mín fengi að koma í heimsókn að honum loknum. Við það var staðið og við skötuhjúin fengum að leika okkur saman heima hjá mér frá því kl. 5. Við erum ótrúlega góð saman og mamma bara vissi ekki af okkur inni í herbergi mestallann tímann. Herbergið var að vísu í rúst eftir á en við hjálpuðum til við að taka til. Ég tók smá dramakast þegar ég áttaði mig á því að ég fengi EKKI að fylgja Jóhönnu Katrínu heim (hver segir svo að riddaramennskan sé dauð?) en út úr því fékk ég loforð um enn einn leikdaginn á morgun, ekki slæmt það.
Núna er ég að hjúfra mig upp að mömmu minni, kyssa hana og knúsa og farinn að biðja um að fá að fara inn að lúlla. Æii ég er nú alveg einstakur drengur.
Gullmoli dagsins "mamma ég ætla að banka aleinn hjá Jóhönnu Katrínu, viltu standa þarna bakvið þæg og góð á meðan? Viltu gera það fyrir mig mamma mín... ha?"

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home