föstudagur, maí 30, 2008

Að hugsa eins og hagfræðingur

Þetta heldur hún móðir mín að hún sé loksins búin að hafa það af að kenna mér. Þegar við vorum í Flatey um síðustu helgi var ég ekki búinn að vera nema ca. 15 mínútur í eynni þegar ég var búinn að bleyta bæði skó og sokka. Mamma greip mig þar sem ég var kominn úr hvoru tveggja og hljóp um í bleytunni berfættur. Hún var nú ekki ánægð með það kellingin og dró mig inn í hús að finna á mig þurra sokka og setja mig í stígvélin.
Mamma: Egill Orri! Hvar eru sokkarnir sem þú varst í?
Egill Orri: (yppti öxlum) Ég veit það ekki!
Mamma: Egill Orri, gengurðu svona um hlutina þína. Ekki nóg með að þú sért búinn að bleyta þig allann heldur skilurðu bara eftir sokkana úti á víðavangi. Farðu út og finndu þessa sokka. Annars verð ég endanlega brjáluð.
Egill Orri: (leit út í hryssingslega veðrið, leit svo á mömmu sína og sagði) En mamma, hvað verðurðu lengi reið?
(Maður er nú enginn asni og er ekki að leggja á sig of mikla óþarfa vinnu ef hún verður kannski bara stutt reið)

mánudagur, maí 19, 2008

Dans

Ég fékk að vera með í ratleiknum sem mamma, Stína og Beta höfðu skipulagt um Borgarnes um helgina. Ég fékk sko að vera með pabba í liði og mér fannst þetta rosalega gaman. Um kvöldið var svo borðað á hótelinu hans afa og þar átti hvert lið að vera með skemmtiatriði. Þá fékk ég að vera með sérstakt atriði, dans, við lagið Hey hey hey I say Ho ho ho. Þessi dans var að vísu meira svona fimleikaæfingar en þetta var nú samt bara voða fínt hjá mér. Ég uppskar sérstök heiðursverðlaun fyrir vikið. Það var flottur Ferrari leikfangabíll.
Morguninn eftir var ég að leika mér með bílinn flotta...

Mamma: Þetta er aldeilis flottur bíll sem þú fékkst, ekkert smá heppinn
Egill Orri: Já en ég vissi að ég myndi fá hann
Mamma: Nú?
Egill Orri: Já, ég vissi alveg að ég var langflottastur

Sælir eru hógværir því þeir munu erfa jörðina - eða something to that effect.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Ekkert að frétta?

No news is good news.

Við bræður erum kátir og áttum góða helgi saman. Fórum hjólandi í Hvítasunnudagsmatinn hjá ömmu og erum búnir að vera endalaust úti í skotbolta og öðrum leikjum. Nú styttist líka svakalega í Ítalíu. Við verðum með okkar eigin sundlaug og allt .... :)

sunnudagur, maí 04, 2008

Afi minn ...

... hann á afmæli í dag. Sko hann Hjörtur afi. Við afi erum sko bestu vinir og ég næ nú oftast að vefja honum svona þokkalega í kringum litlafingur á mér. Þetta veit ég og reyni oftar en ekki að ganga á lagið. Þessu áttaði ég mig á snemma á lífsleiðinni og því til staðfestingar er hér rifjuð upp ein fleyg setning frá árinu 2004
Mamma: Egill Orri, eigum við að koma afa Hjartar?
Egill Orri: (yfir sig hrifinn) JaaaaaÁ - hann gefur mér alltaf allt sem ég vil því ég er litli strákurinn hans
Innilega til hamingju með daginn elsku Hjörtur afi