þriðjudagur, júní 14, 2005

Sveitaferð

Í gær fór ég í sveitaferð með mömmu minni og Matta bróður mínum. Það var rosalega gaman. Sólin skein og það var heitt og notalegt í sveitinni. Við fórum sko nefnilega austur í Hrepphóla þar sem hann Hjörtur Snær litli frændi minn var. Mér fannst rosa gaman að hitta hann en var samt aðeins uppteknari af öllu sem var að sjá og gera í sveitinni. Við fórum í fjárhúsið og fjósið og sáum lítil lömb sem áttu enga mömmu (mamma sagði að þau hétu heimalningar) og litla kálfa. En í fjósinu var líka ein stór belja sem baulaði rosahátt. Ég skammaði hana nú smá. Þar var líka skrýtinn traktor sem ég og Matti fengum að prófa. Eftir það fórum við svo í hesthúsið og þar voru (inni í skáp sem okkur Matta fannst fyndið) nokkrir litlir hvolpar. Ofsalega sætir og við vorum ekkert hræddir að klappa þeim og halda á þeim. Ég missti samt einn þeirra í gólfið en hann meiddi sig ekkert. En við vorum soldið hræddir við mömmu þeirra hana Pílu sem gelti og urraði mikið, því hún hélt að við værum að taka börnin hennar. Hún var samt bundin greyið svo við þurftum ekkert að vera neitt mjög hræddir.
En í sveitinni hans litla frænda var sko líka stórt trampólín. Við hoppuðum og hömuðumst á því og svo kom meira segja mamma og hoppaði með okkur svo við skoppuðum hátt upp í loft. Ótrúlega gaman í sveitinni.
Eftir að við vorum búnir að borða vöfflur með rjóma og drekka trópí þá fórum við annan rúnt í fjósið, hlöðuna og hesthúsið áður en við kvöddum og fórum á Selfoss þar sem við fengum að fara í sund. Matti var rosalega þægur og góður og fór í litlu svepparennibrautina og Gotta-rennibrautina á fullu en ég var samt aðeins óþekkur og reifst við mömmu mína þegar hún sagði að ég væri of lítill til að fara í stóru rennibrautina. En ég jafnaði mig fljótt og við fórum aðeins í innilaugina og lékum okkur með bolta og flotholt.
Mömmu minni fannst við Matti nú alveg óborganlegir og hló mjög mikið að samtölunum okkar, sagði að við töluðum saman eins og litlir kallar. Ég er líka svo mikill stóribróðir, ég þarf að passa hann Matta minn (og soldið mikið að leiðrétta hann og segja honum hvernig heimurinn virkar).
Eftir sundið fengum við að fara í Nóatún á Selfossi og kaupa jógúrt og vínber og borðuðum það í kvöldmatinn áður en við brunuðum í Eden þar sem keyptur var ís fyrir peningana sem Villi afi hafði gefið okkur. Þar lékum við okkur líka aðeins í leiktækjunum áður en kl. varð næstum hálfátta og tími til komin að halda heim. Við mamma keyrðum Matta heim á Kristnibraut til mömmu hans og við Matti lékum okkur aðeins í lyftunni áður en tími var kominn til að fara heim í Háagerði.
Þetta var nú rosalega skemmtilegur dagur hjá okkur.
Þetta samtal fannst mömmu minni nú alveg óborganlegt
Egill Orri :babblar eitthvað óskiljanlegt bull
Marteinn: Egill, ertu að bulla?
Egill Orri: (í mjög föðurlegum tón) nei Matti, þetta er ekki bull, ég er að tala útlensku.
Marteinn: útlensku?
Egill Orri: já þú skilur þetta ekki, ég þarf að tala útlensku þegar ég flyt til Svíþjóð

sunnudagur, júní 12, 2005

Hótelið hans afa

Í dag er búið að vera mikið að gera hjá mér. Ég fór með mömmu minni upp í Borgarnes þar sem hann afi Hjörtur og amma Unnur eru að byggja hótel. Þar voru allir að hjálpast að við að taka til og þrífa svo að múrararnir gætu klárað að flísaleggja og ég var roooooooosalega duglegur að hjálpa til að henda litlum spýtum í fötur og svo út í gám. Það er nú ekki ónýtt fyrir hann afa minn að eiga mig að skal ég segja ykkur. Ýmsir eldri gera nú minna gagn. Þar hitti ég nú Halldór frænda minn og líka Helga bróður hans afa. Ég var voðalega hrifin af honum en mundi lengst af ekki alveg hvað hann hét svo ég kallaði hann bara frænda. 'Frændi, frændi' galaði ég um gangana og fylgdist spenntur með því þegar hann var að skera flísarnar í sturturnar. Sagði honum svo að ég væri að fara að flytja til Svíþjóðar og þangað yrði hann að heimsækja mig.
Eftir þessa vinnutörn og eftir að hafa stolið mér dálitlu nammi á Shell fór ég í heita pottinn í Hamravík og er núna að kúsa hjá ömmu minni og horfa á Hefðarkettina.
Um daginn var ég annars að skoða blaðið með mömmu minni og sá þá mynd af konu vera að keyra traktor. Ég var nú heldur betur hneykslaður á þessu og hrópaði upp yfir mig 'kona að keyra traktor!'. 'Já' sagði mamma mín 'konur geta alveg keyrt traktora og bíla'. 'Nei' sagði ég þá. 'Þær geta það ekkert, bara menn og kallar'. 'En er ég ekki alltaf að keyra bílinn okkar' spurði mamma mín þá. 'En þú ÁTT heldur engan kall' sagði ég þá til skýringar. Skilur hún þetta ekki eða hvað?

föstudagur, júní 10, 2005

Sumarfrí

Við mamma mín erum komin í langþráð sumarfrí. Það er að segja aðallega langþráð fyrir mömmum mína þó mér finnist svosem ekkert verra að vera hættur á leikskólanum. Svo styttist líka í afmælið mitt og mig rennir í grun að þá fái ég jafnvel einhverja pakka. Ég er búin að ákveða að það verði Superman kaka í afmælinu en þetta er samt hálfgert leyndó ennþá svo þið megið ekki segja neinum frá.

Ég er semsagt fluttur í Háagerði 57 full-time og mér finnst það bara ágætt. Ég get þá alltaf farið til Bjarka vinar míns sem á heima í nr. 14 og er bara réééétt hjá okkar húsi. Saman förum við svo út á róló og leikum okkur. Það er ekki sem verst þetta Reykjavíkurlíf.

Mamma mín er annars tekin upp á einhverju líkamsræktaræði og fer í Hreyfingu á hverjum degi, hún er að vísu líka rétt hjá Háagerðinu svo þetta er nú allt voðalega þægilegt. Svona er H57 (aka Háagerði 57) skemmtilega staðsett með tilliti til þarfa okkar mömmu.

Ég held áfram að eiga mína gullmola og núna í júní hafa nú þó nokkrir dottið, eftir því sem mamma mín man best þá eru þetta þeir helstu.

Maj-Britt: Bless bless Egill Orri
Egill Orri: Hvert ertu að fara?
Maj-Britt: Í vinnuna mína
Egill Orri: í KB-banka? (segið svo að ég fylgist ekki með markaðnum)

Egill Orri: Mamma, einu sinni var ég í bumbunni þinni
Mamma: Já ástin mín, alveg rétt
Egill Orri: Mamma, mér fannst ekkert gaman í bumbunni
Mamma: Nú? Af hverju ekki?
Egill Orri: Það var ekkert dót þar

Heyrt á ferð í Ártúnsbrekkunni
Egill Orri: Mamma, hvað var þetta stóra, bláa grunsamlega tæki sem við sáum? (sumsé örvaskilti sem var til að segja okkur að skipta um akrein)


Í bílnum
Mamma: Hvað varstu að segja ástin mín?
Egill Orri: Ég var bara eitthvað að tauta að mig langaði á McDonalds

Á þriðjudaginn í síðustu viku þá vorum við mamma að hugsa um að heimsækja Villa afa á verkstæðið en þegar við komum á staðinn var bíllinn hans hvergi sjáanlegur. Mamma hélt að afi hefði ekki farið í vinnuna en ég var hins vegar á því að sennilega hefði hann bara labbað í vinnuna og skilið bílinn eftir heima. Eitthvað fannst mömmu minni þetta ótrúleg atburðarás og benti á að það væri nú heldur langt að labba alla leiðina ofan úr Hraunbæ og niður á verkstæði.

'hann Villi afi getur nú alveg labbað langt, hafðu engar áhyggjur mamma' heyrðist þá í mér.