sunnudagur, júní 12, 2005

Hótelið hans afa

Í dag er búið að vera mikið að gera hjá mér. Ég fór með mömmu minni upp í Borgarnes þar sem hann afi Hjörtur og amma Unnur eru að byggja hótel. Þar voru allir að hjálpast að við að taka til og þrífa svo að múrararnir gætu klárað að flísaleggja og ég var roooooooosalega duglegur að hjálpa til að henda litlum spýtum í fötur og svo út í gám. Það er nú ekki ónýtt fyrir hann afa minn að eiga mig að skal ég segja ykkur. Ýmsir eldri gera nú minna gagn. Þar hitti ég nú Halldór frænda minn og líka Helga bróður hans afa. Ég var voðalega hrifin af honum en mundi lengst af ekki alveg hvað hann hét svo ég kallaði hann bara frænda. 'Frændi, frændi' galaði ég um gangana og fylgdist spenntur með því þegar hann var að skera flísarnar í sturturnar. Sagði honum svo að ég væri að fara að flytja til Svíþjóðar og þangað yrði hann að heimsækja mig.
Eftir þessa vinnutörn og eftir að hafa stolið mér dálitlu nammi á Shell fór ég í heita pottinn í Hamravík og er núna að kúsa hjá ömmu minni og horfa á Hefðarkettina.
Um daginn var ég annars að skoða blaðið með mömmu minni og sá þá mynd af konu vera að keyra traktor. Ég var nú heldur betur hneykslaður á þessu og hrópaði upp yfir mig 'kona að keyra traktor!'. 'Já' sagði mamma mín 'konur geta alveg keyrt traktora og bíla'. 'Nei' sagði ég þá. 'Þær geta það ekkert, bara menn og kallar'. 'En er ég ekki alltaf að keyra bílinn okkar' spurði mamma mín þá. 'En þú ÁTT heldur engan kall' sagði ég þá til skýringar. Skilur hún þetta ekki eða hvað?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home