Sveitaferð
Í gær fór ég í sveitaferð með mömmu minni og Matta bróður mínum. Það var rosalega gaman. Sólin skein og það var heitt og notalegt í sveitinni. Við fórum sko nefnilega austur í Hrepphóla þar sem hann Hjörtur Snær litli frændi minn var. Mér fannst rosa gaman að hitta hann en var samt aðeins uppteknari af öllu sem var að sjá og gera í sveitinni. Við fórum í fjárhúsið og fjósið og sáum lítil lömb sem áttu enga mömmu (mamma sagði að þau hétu heimalningar) og litla kálfa. En í fjósinu var líka ein stór belja sem baulaði rosahátt. Ég skammaði hana nú smá. Þar var líka skrýtinn traktor sem ég og Matti fengum að prófa. Eftir það fórum við svo í hesthúsið og þar voru (inni í skáp sem okkur Matta fannst fyndið) nokkrir litlir hvolpar. Ofsalega sætir og við vorum ekkert hræddir að klappa þeim og halda á þeim. Ég missti samt einn þeirra í gólfið en hann meiddi sig ekkert. En við vorum soldið hræddir við mömmu þeirra hana Pílu sem gelti og urraði mikið, því hún hélt að við værum að taka börnin hennar. Hún var samt bundin greyið svo við þurftum ekkert að vera neitt mjög hræddir.
En í sveitinni hans litla frænda var sko líka stórt trampólín. Við hoppuðum og hömuðumst á því og svo kom meira segja mamma og hoppaði með okkur svo við skoppuðum hátt upp í loft. Ótrúlega gaman í sveitinni.
Eftir að við vorum búnir að borða vöfflur með rjóma og drekka trópí þá fórum við annan rúnt í fjósið, hlöðuna og hesthúsið áður en við kvöddum og fórum á Selfoss þar sem við fengum að fara í sund. Matti var rosalega þægur og góður og fór í litlu svepparennibrautina og Gotta-rennibrautina á fullu en ég var samt aðeins óþekkur og reifst við mömmu mína þegar hún sagði að ég væri of lítill til að fara í stóru rennibrautina. En ég jafnaði mig fljótt og við fórum aðeins í innilaugina og lékum okkur með bolta og flotholt.
Mömmu minni fannst við Matti nú alveg óborganlegir og hló mjög mikið að samtölunum okkar, sagði að við töluðum saman eins og litlir kallar. Ég er líka svo mikill stóribróðir, ég þarf að passa hann Matta minn (og soldið mikið að leiðrétta hann og segja honum hvernig heimurinn virkar).
Eftir sundið fengum við að fara í Nóatún á Selfossi og kaupa jógúrt og vínber og borðuðum það í kvöldmatinn áður en við brunuðum í Eden þar sem keyptur var ís fyrir peningana sem Villi afi hafði gefið okkur. Þar lékum við okkur líka aðeins í leiktækjunum áður en kl. varð næstum hálfátta og tími til komin að halda heim. Við mamma keyrðum Matta heim á Kristnibraut til mömmu hans og við Matti lékum okkur aðeins í lyftunni áður en tími var kominn til að fara heim í Háagerði.
Þetta var nú rosalega skemmtilegur dagur hjá okkur.
Þetta samtal fannst mömmu minni nú alveg óborganlegt
Egill Orri :babblar eitthvað óskiljanlegt bull
Marteinn: Egill, ertu að bulla?
Egill Orri: (í mjög föðurlegum tón) nei Matti, þetta er ekki bull, ég er að tala útlensku.
Marteinn: útlensku?
Egill Orri: já þú skilur þetta ekki, ég þarf að tala útlensku þegar ég flyt til Svíþjóð
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home