sunnudagur, nóvember 25, 2007

Sjálfstraust

Í morgun komu ég og Matti bróðir inn í herbergi og spurðum mömmu hvort við mættum fara í tölvuna hennar. Já var svarið sem vakti mikla lukku og ég knúsaði mömmu og sagði "þú ert besta mamma í heimi". Matti bróðir knúsaði hana líka og sagði "þú ert besta Sigrún í heimi" Mömmu minni fannst þetta sætt og sagði á móti "já og þú ert besti Marteinn í heimi".

"já ég veit það" var svarið umsvifalaust. Það er gott að vera með gott sjálfstraust :)

mánudagur, nóvember 19, 2007

Halda sér við efnið

Mamma mín sat inni í stofu og var að tala við pabba minn þegar ég stakk höfðinu út um dyragættina á eldhúsinu og sagði:

"Hey mamma! Róa sig í spjallinu og fara að tjékka á fiskinum - koma svo!"

Já það læra víst börnin sem fyrir þeim er haft!!

föstudagur, nóvember 16, 2007

veðurraunir

Í morgun var mamma mín að reyna að koma mér í stígvél og pollagalla.. af hverju? Jú það var nefnilega rigning.
Egill Orri: Mamma! Það er ekki rigning úti, þú veist það ekki
Mamma: Egill minn, þú heyrir það bara að rigningin dynur á þakinu
Egill Orri: Má ég bara gá út (opnar út og sér úrhellið) - nei þetta eru bara dropar af þakinu
Mamma: En þú sást veðurfréttirnar í gær, það átti að vera pollagallaveður í dag
Egill Orri: En mamma, þessir veðurmenn þeira vita ekki neitt. Þeir eru bara, þeir eru bara .... giskumenn!

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Mickey D's


"mamma! þegar ég verð stór ætla ég að vinna á Macdonald's"


áiiiii.....

föstudagur, nóvember 02, 2007

Vetrarfrí

Ég er búinn að vera í góðu yfirlæti hjá henni ömmu minni í vetrarfríinu. Grenjaði svoleiðis þegar ég neyddist til að fara með pabba í gær til að fara að sofa HEIMA HJÁ MÉR!! Oj bara hvað er gaman við það? Í kvöld þegar mamma mín kemur loksins heim þá förum við til ömmu langömmu á Selfossi og þaðan í bústaðinn á Laugarvatni. Jíbbí jei löng helgi í bústað. Það verður fjör á okkur bræðrum.