mánudagur, maí 23, 2005

Óþekktarpjakkur

Mikið ofboðslega er hún mamma mín orðin þreytt á mér þessa dagana. Hún bókstaflega skilur ekki hvað er hlaupið í strákinn sinn. Ég er nefnilega tekinn upp á því að vera alveg ótrúlega óþekkur. Segi henni svo bara að þegja og slæ hana ef hún skammar mig. Eiginlega veit mamma ekki sitt rjúkandi ráð, hún er bara orðin uppgefin. Þegar þessi orð eru rituð þá er ég grenjandi inni í rúmi vegna þess að ég var sendur í háttinn án þess að lesið væri fyrir mig. Ástæðan? Ég sló mömmu mína þegar hún tók mig úr nammiskápnum hjá ömmu Unni þar sem ég var að reyna að næla mér í tyggjó.
Það sem verra er þá er ég líka orðin ótrúlega hortugur, kann bókstaflega ekkert að skammast mín og held að það sé í góðu lagi að skemma / stela / skíta út bara svo lengi sem mamma mín sér ekki til mín. Hvað á mamma eiginlega að gera við svona strák?
Til að gæta allrar sanngirni þá grunar mömmu nú svosem að flutningarnir af Bifröst og yfirvofandi flutningar til Svíþjóðar spili nú stóra rullu. Vonandi að ég komist í betra jafnvægi þegar mamma mín kemst loksins í langþráð sumarfrí og við getum farið að vera saman að gera eitthvað skemmtilegt, vonandi í góðu veðri. Svo förum við saman til Boston í júlí í frí og þá verður nú heldur en ekki gaman.
Þó ég sé hortugur þá á ég nú svosem mína spretti í fyndninni. Um daginn var ég (oftar sem áður) dreginn í Húsasmiðjuna með mömmu minni. Ég nennti því alls ekki og langaði mun frekar að fara í bíó en í búðir og reyndi allt hvað ég gat að sannfæra móður mína um að Húsasmiðjan væri ekki búð. "jú ástin mín, hún er víst búð" sagði mamma þá. "Mamma! hún er ekki búð, skilurðu ekki mælt mál?"

þriðjudagur, maí 10, 2005

Vesen á mömmu minni

ÚFF þessir flutningar eru nú að taka sinn toll á mér en ekki síður henni mömmu minni. Mér finnst hún nú ekki alveg hafa verið að sinna mér nógu vel upp á síðkastið. Mig langar nefnilega að gera svo margt, aðallega langar mig samt í sund og í leiksystkin, þú veist svona eins og Aron Elvar var að fá [lesist lítið systkini]. Mömmu minni fannst það nú ekki vera líklegt til að gerast á næstunni þegar ég bað skyndilega um það um helgina en þá átti eftirfarandi samtal sér stað.

Egill Orri: Mamma mig langar svo í lítinn leikbróður.
Mamma: Nú?
Egill Orri: Já svona eins og Aron Elvar var að fá
Mamma: Jaaaá, það er ekki hægt ástin mín, kannski einhvern tíma en ekki strax
Egill Orri: En af hverju ekki núna?
Mamma: Af því að mamma er ekki með neitt barn í maganum
Egill Orri: En þú verður bara að tala við sjúkramanninn og biðja hann um að láta mörg börn í magann þinn.
Mamma: Sjúkramanninn? Af hverju?
Egill Orri: Af því hann á svo mörg börn sem hann vill ekki eiga.
Einfalt mál fannst mér en mamma var ekki sammála, skrítið.
Annars gerði ég ýmislegt með mömmu minni um helgina. Ég var hreint ótrúlega duglegur að hjálpa henni að henda drasli í Sorpu en mér finnst fátt skemmtilegra en að fara þangað. Hljóp eins og brjálæðingur inn og út úr bílnum og henti öllu lauslegu sem fyrir mér varð. Mamma gat rét svo bjargað prófúrlausnunum sem hún átti eftir að fara yfir áður en þeir lentu í stóra pressugámnum. Kannski verð ég ruslakall þegar ég verð stór. Hver veit?
Á laugardaginn ætluðum við að fara að fá lánaða kerru hjá Skeljungi til að flytja m.a. sófann frá foreldrum hennar Maj-Britt í H57. Ég var nú ekkert að nenna því og spurði hvort foreldrar hennar yrðu nokkuð heima þegar við sæktum sófann. Jú Maj-Britt hélt það. "Æi ég get bara ekki verið að tala við eitthvað fólk núna" sagði ég með grátstafinn í kverkunum.
Á morgun fer ég svo í sveitaferð með leikskólanum upp að Háafelli að heimsækja hana Jóu sem á bæði fullt af lömbum og kiðlingum, já hún Jóa á nefnilega nokkrar geitur. Það verður nú aldeilis skemmtilegt og ég fæ að fara í rútu og allt. Eftir það förum við mamma svo til Reykjavíkur og ég ætla að vera alla helgina hjá pabba mínum og við ætlum að gera ýmislegt skemmtilegt saman.

þriðjudagur, maí 03, 2005

Flutningar

Jæja þá er það um garð gengið, við mamma erum flutt af Bifröst. Þetta er reyndar soldið leiðinlegt þar sem ég er loksins farinn að geta leikið mér meira úti með vinum mínum eftir leikskóla. En Bjarki vinur minn á samt líka heima í Háagerðinu og ég get hjólað til hans þegar ég er þar sem er náttúrulega líka gott. Ég er býsna spenntur að vera fluttur í H57 og finnst ofsalega gaman að vera í litla kósí herberginu mínu við litla gluggann minn og horfa út. Svaf meira að segja í því (næstum) heila nótt á sunnudaginn og kom bara upp í til mömmu í eitt augnablik, sem eru miklar framfarir.
Annars var frekar mikið um að vera hjá mér um helgina. Á föstudaginn hjálpaði ég mömmu að flytja hluta af dótinu okkar af Bifröst, pabbi og Matti komu að sækja mig á sendibíl sem mér leiddist nú ekki mjög mikið. Á laugardaginn fékk ég að fara með Halla og Mumma, uppáhaldsfrændunum mínum, með fjarstýrðu bílana upp á Kjalarnes og leika með þá. Á sunnudaginn fékk ég svo að fara bæði í leikhús á Kalla á þakinu OG í húsdýragarðinn. Geri aðrir betur.
Gullmolarnir halda áfram að hrynja en mamma mín er ekki alveg jafn dugleg að muna þá og oft áður, það er búið að vera svo óskaplega mikið að gera hjá henni. Hún var nefnilega að flytja restina af dótinu okkar um helgina og svo er hún líka að undirbúa sig undir söngprófið sitt sem verður á föstudaginn.
Núna ætlum við að fara í Borgarnes og gista hjá ömmu og afa sem mér finnst nú frekar skemmtilegt og á fimmtudaginn fer ég svo til Reykjavíkur til pabba labba lú. Veiiiiiiii hvað það verður gaman.