þriðjudagur, maí 10, 2005

Vesen á mömmu minni

ÚFF þessir flutningar eru nú að taka sinn toll á mér en ekki síður henni mömmu minni. Mér finnst hún nú ekki alveg hafa verið að sinna mér nógu vel upp á síðkastið. Mig langar nefnilega að gera svo margt, aðallega langar mig samt í sund og í leiksystkin, þú veist svona eins og Aron Elvar var að fá [lesist lítið systkini]. Mömmu minni fannst það nú ekki vera líklegt til að gerast á næstunni þegar ég bað skyndilega um það um helgina en þá átti eftirfarandi samtal sér stað.

Egill Orri: Mamma mig langar svo í lítinn leikbróður.
Mamma: Nú?
Egill Orri: Já svona eins og Aron Elvar var að fá
Mamma: Jaaaá, það er ekki hægt ástin mín, kannski einhvern tíma en ekki strax
Egill Orri: En af hverju ekki núna?
Mamma: Af því að mamma er ekki með neitt barn í maganum
Egill Orri: En þú verður bara að tala við sjúkramanninn og biðja hann um að láta mörg börn í magann þinn.
Mamma: Sjúkramanninn? Af hverju?
Egill Orri: Af því hann á svo mörg börn sem hann vill ekki eiga.
Einfalt mál fannst mér en mamma var ekki sammála, skrítið.
Annars gerði ég ýmislegt með mömmu minni um helgina. Ég var hreint ótrúlega duglegur að hjálpa henni að henda drasli í Sorpu en mér finnst fátt skemmtilegra en að fara þangað. Hljóp eins og brjálæðingur inn og út úr bílnum og henti öllu lauslegu sem fyrir mér varð. Mamma gat rét svo bjargað prófúrlausnunum sem hún átti eftir að fara yfir áður en þeir lentu í stóra pressugámnum. Kannski verð ég ruslakall þegar ég verð stór. Hver veit?
Á laugardaginn ætluðum við að fara að fá lánaða kerru hjá Skeljungi til að flytja m.a. sófann frá foreldrum hennar Maj-Britt í H57. Ég var nú ekkert að nenna því og spurði hvort foreldrar hennar yrðu nokkuð heima þegar við sæktum sófann. Jú Maj-Britt hélt það. "Æi ég get bara ekki verið að tala við eitthvað fólk núna" sagði ég með grátstafinn í kverkunum.
Á morgun fer ég svo í sveitaferð með leikskólanum upp að Háafelli að heimsækja hana Jóu sem á bæði fullt af lömbum og kiðlingum, já hún Jóa á nefnilega nokkrar geitur. Það verður nú aldeilis skemmtilegt og ég fæ að fara í rútu og allt. Eftir það förum við mamma svo til Reykjavíkur og ég ætla að vera alla helgina hjá pabba mínum og við ætlum að gera ýmislegt skemmtilegt saman.

1 Comments:

Blogger Maja pæja said...

obbosslega sakna ég þín og þúrt svo mikið asskotans rassgatarófa

1:08 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home