miðvikudagur, janúar 27, 2010

Skamm skamm

Hæ og hó mamma mín skammast sín bara talsvert þegar hún kíkir hingað inn í fyrsta sinn í marga mánuði. Síðasta færsla síðan 1.nóvember? Einhvern tíma var þessari síðu nú haldið betur við.

Mamma ætlar samt ekki að segjast ætla að loka síðunni ennþá. Hún ætlar í það minnsta að passa að eiga alla gullmolana sem hafa hrunið af vörum mínum í gegnum tíðina. Þeir eru ómetanlegir.

Annars er ég hress og sprækur. Æfi fótboltann á fullu og er glaður og kátur í skólanum. Mér hefur farið mikið fram segir kennarinn, bæði í lestrinum og skriftinni. Svo finnst mömmu og pabba ég hafa verið ofsalega góður á nýja árinu og geðvonskan öll á undanhaldi. Sem er nú gott.
Ragnheiður Gróa er líka ótrúlega hrifin af bróður sínum - lyftist öll upp við að sjá hann og finnst gott að príla á honum á morgnana þegar hún fær (líka) að koma í mömmu og pabba rúm. :)

sunnudagur, nóvember 01, 2009

The truth hurts...

EO: Mamma hvenær breytið þið aftur nafninu úr Íslandsbanki í Glitnir?

M: Það gerist ekki, það er ekkert verið alltaf að breyta þessu fram og tilbaka

EO: En mamma, þetta er bara svindl. Þið máttuð ekkert breyta nafninu bara þó þið hafið orðið gjaldþrota. Þið verðið bara að vera Glitnir á hausnum.

- mar er nú enginn asni!

laugardagur, október 17, 2009

Tjillaður

Um síðustu helgi tóku foreldrar mínir upp á því að fara að gifta sig. Ég var hringaberi og þurfti að vera í jakkafötum. Mömmu minni fannst ég að sjálfsögðu ómótstæðilega sætur í þeim en mér fannst ég nú ekki flottur. Þessi mynd segir nú soldið það sem segja þarf :)Annars var ég mikið að spyrja mömmu hvort hinar og þessar vinkonur hennar væru búnar að gifta sig og hvort okkur yrði boðið í þau brúðkaup. Meðal annars barst talið að Maj-Britt:

Egill Orri: Mamm, er Maj-Britt búin að gifta sig?

Mamma: Nei, ekki ennþá

Egill Orri: Förum við í brúðkaupið hennar?

Mamma: Já já allavegna ég og pabbi, ég veit ekki hvort börnum verður boðið

Egill Orri: [hneykslaður] Mamma! Ég held nú að mér verði boðið, ég er besti vinur hennar!

fimmtudagur, ágúst 20, 2009

Hrakfallabálkur

ég er nú alltaf sami hrakfallabálkurinn. Í þetta sinn missti ég aðeins stjórn á mér í hita leiksins í fótbolta og þrusaði berum fætinum í misfellu á pallinum í sumarbústaðnum. Í stuttu máli öskraði ég eins og stunginn grís og þegar mamma og pabbi gáðu að mér var stóra táin á mér í tætlum og það var brunað með mig í Laugarás þar sem saumuð voru lítil 8 spor. Þeink jú verí næs. Enginn fótbolti hjá mér í 3 vikur.

:(

mánudagur, júní 29, 2009

Fögur er hlíðin

Við fórum í sveitina um helgina. Ég fékk að gróðursetja fullt af plöntum sem verða einhvern tíma (vonandi) alvöru skógur.

Þetta er tryllitækið sem við fórum á upp á heiði (meðal annars, þetta var nú alveg bílfært). Með mér á myndinni eru Björk og Helena vinkonur mínar. Þetta var ofsalega skemmtilegt.

Ég fékk að fara með pabba upp á heiði strax á laugardagsmorgun en mamma varð eftir niðri við hús með Ragnheiði sem var að leggja sig. Eftir mat þegar komið var að því að fara aftur upp á fjall snéri ég mér að mömmu minni og sagði blákalt (og í fúlustu alvöru)


"Mamma, það er best að ég keyri, því ég rata" ....


:)

mánudagur, júní 22, 2009

myndir frá mótinu

Dagurinn loksins runninn upp og ég tilbúinn í slaginn


mættur á Skagann og verið að undirbúa skrúðgönguna
Fylkisliðið komið af stað í sól & blíðu
Einbeittur á svip í leik á móti Skallagrími frá Borgarnesi
Á leiðinni inn á völlinn, ég var fyrirliði
það sást glitta í átrúnaðargoðið Eið Smára á mótinu, mamma laumaðist til að taka mynd úr fjarlægð
Snilldartaktar á móti Ægi frá Þorlákshöfn
Áhangendur #1, mamma og Ragnheiður Gróa

"sponsorarnir" - afi tók þátt og styrkti sinn mann
Ragnheiður Gróa og afi að bíða á milli leikja

Það var mikið fagnað eftir leikinn við ÍA enda skoraði ég 6 mörk

Ingó kom og skemmti á kvöldvökunni

Fylkismenn á kvöldvökunni

Stefán liðsstjóri afhendir viðurkenningu fyrir þátttökuna
Ég, Baldur og Ævar, ánægðir e. gott mót
Frábær helgi að baki og ég mættur á verðlaunaafhendinguna
Þar sem mitt lið var valið það prúðasta og fyrir það fékkst langflottasti og stærsti bikarinn :)

sunnudagur, júní 21, 2009

Skagamótið

.... var frábært. Ég keppti 8 leiki og skemmti mér konunglega. Við unnum 3 en töpuðum 5. Það var samt allt í lagi. Ég skoraði 6 mörk í einum leik og það var nóg til að gleyma öllu um töpin. Liðið mitt vann líka stærsta og flottasta bikarinn sem var veittur, það var fyrir prúðmennsku og Fylkir var að vinna hann annað árið í röð. Frábært. Mamma mín fór nú soldið bara að gráta þegar ég fagnaði með félögunum mínum. Henni fannst þetta langbesti og mikilvægasti titillinn.

Myndir koma hérna inn á morgun.

Glaður, stoltur og þreyttur strákur sem lagðist til svefns í kvöld.