mánudagur, maí 18, 2009

Allur að koma til

Ég er nú allur að koma til af brotinu og man orðið sjaldan eftir því nema þegar mamma biður mig um að gera eitthvað sem ég nenni alls ekki að gera. Á morgun fer ég til læknisins í skoðun og verð væntanlega "útskrifaður" í framhaldinu. Sem er eins gott því Flatey er næst á dagskrá og þar er nú eins gott að geta hlaupið og hamast án takmarkana.

sunnudagur, maí 10, 2009

Viðbeinsbrotinn

Já það er þokkalega hugsað um mann. Maður er bara látinn ganga um viðbeinsbrotinn í 2 daga áður en maður er sendur til læknis. Mömmu og pabba til málsbóta þá reyndar sór ég og sárt við lagði að ég væri orðinn MIKLU betri á föstudag (slysið varð á fimmtudagskvöld) og þar sem ekkert sá á mér (hvorki marblettir né skrámur) þá tóku þau það gott og gilt.
En þau sáu svo að ég hafði nú sennilega verið að harka af mér meira en góðu hófi gegnir af hræðslu við að vera annars meinað að taka þátt í KFC-móti Þróttar sem fram fór í Laugardalnum í gær. Ég var búinn að hlakka til mótsins í tæpan mánuð og ætlaði sko ekki að missa af því. Ekki síst þegar í ljós kom að ég hafði verið færður upp í lið 1 (úr 2) og vildi sýna mig og sanna. En það þurfti ekki mikið til að sjá að ég var sárkvalinn og hlífði hægri hendinni mjög mikið. Þá þýddi ekkert múður og mér skipt út af í snarhasti og keyrður á Slysó. Myndataka leiddi svo sannleikann í ljós, viðbeinið hægra megin er brotið og ég fékk fatla til að hvíla handlegginn. Annað er víst ekki hægt að gera við svona broti en ég var "kyrrsettur" af lækninum og má ekki fara á fótboltaæfingu eða í neinn hamagang næstu 2 vikurnar.
Ég lofaði mömmu og pabba að reeeeeeeeeyna að halda það því ekki vil ég eiga á hættu að komast ekki á hið langþráða Skagamót sem fram fer eftir rúmlega mánuð.
Nú er bara að kenna Ragnheiði Gróu að segja ÁFRAM FYLKIR!!

föstudagur, maí 08, 2009

Nýr kennari

Ég er búinn að fá nýjan kennara sem heitir Edda Júlía. Hún er svolítið öðruvísi en flestir því að hún er bara með eina hendi. Hún fékk nefnilega krabbamein og það þurfti að taka af henni höndina. En það skiptir engu máli, hún er ekkert smá dugleg og yndislegur kennari.

Í gær vildi svo til að ég datt af hjólinu mínu og var illt í öxlinni eftir byltuna. Vegna þessa fylgdu mamma og Ragnheiður Gróa mér í skólann í morgun. Mamma vildi hitta Eddu Júlíu og útskýra hvað hafði gerst og láta vita að það mætti hringja í hana ef mér versnaði og vildi láta sækja mig.

Á leiðinni vorum við mamma að ræða þetta.

Egill Orri: Mamma, þú verður að vera heima ef Edda Júlía hringir í þig

Mamma: Hún hringir bara í gemsann og ég og pabbi komum og sækjum þig ef við erum einhvers staðar út í bæ

Egill Orri: En hún er ekki með gemsanúmerið þitt, bara heimasímann

Mamma: Ertu viss? Kristín var með gemsanúmerið mitt, hún hringdi oft í mig í gemsann.

Egill Orri: Já en Kristín er líka með tvær hendur, hún gat talað í símann OG skrifað niður númerið þitt, Edda Júlía er bara með eina hendi svo hún getur BARA talað í símann!