Já það er þokkalega hugsað um mann. Maður er bara látinn ganga um viðbeinsbrotinn í 2 daga áður en maður er sendur til læknis. Mömmu og pabba til málsbóta þá reyndar sór ég og sárt við lagði að ég væri orðinn MIKLU betri á föstudag (slysið varð á fimmtudagskvöld) og þar sem ekkert sá á mér (hvorki marblettir né skrámur) þá tóku þau það gott og gilt.
En þau sáu svo að ég hafði nú sennilega verið að harka af mér meira en góðu hófi gegnir af hræðslu við að vera annars meinað að taka þátt í KFC-móti Þróttar sem fram fór í Laugardalnum í gær. Ég var búinn að hlakka til mótsins í tæpan mánuð og ætlaði sko ekki að missa af því. Ekki síst þegar í ljós kom að ég hafði verið færður upp í lið 1 (úr 2) og vildi sýna mig og sanna. En það þurfti ekki mikið til að sjá að ég var sárkvalinn og hlífði hægri hendinni mjög mikið. Þá þýddi ekkert múður og mér skipt út af í snarhasti og keyrður á Slysó. Myndataka leiddi svo sannleikann í ljós, viðbeinið hægra megin er brotið og ég fékk fatla til að hvíla handlegginn. Annað er víst ekki hægt að gera við svona broti en ég var "kyrrsettur" af lækninum og má ekki fara á fótboltaæfingu eða í neinn hamagang næstu 2 vikurnar.
Ég lofaði mömmu og pabba að reeeeeeeeeyna að halda það því ekki vil ég eiga á hættu að komast ekki á hið langþráða Skagamót sem fram fer eftir rúmlega mánuð.
Nú er bara að kenna Ragnheiði Gróu að segja ÁFRAM FYLKIR!!