þriðjudagur, maí 03, 2005

Flutningar

Jæja þá er það um garð gengið, við mamma erum flutt af Bifröst. Þetta er reyndar soldið leiðinlegt þar sem ég er loksins farinn að geta leikið mér meira úti með vinum mínum eftir leikskóla. En Bjarki vinur minn á samt líka heima í Háagerðinu og ég get hjólað til hans þegar ég er þar sem er náttúrulega líka gott. Ég er býsna spenntur að vera fluttur í H57 og finnst ofsalega gaman að vera í litla kósí herberginu mínu við litla gluggann minn og horfa út. Svaf meira að segja í því (næstum) heila nótt á sunnudaginn og kom bara upp í til mömmu í eitt augnablik, sem eru miklar framfarir.
Annars var frekar mikið um að vera hjá mér um helgina. Á föstudaginn hjálpaði ég mömmu að flytja hluta af dótinu okkar af Bifröst, pabbi og Matti komu að sækja mig á sendibíl sem mér leiddist nú ekki mjög mikið. Á laugardaginn fékk ég að fara með Halla og Mumma, uppáhaldsfrændunum mínum, með fjarstýrðu bílana upp á Kjalarnes og leika með þá. Á sunnudaginn fékk ég svo að fara bæði í leikhús á Kalla á þakinu OG í húsdýragarðinn. Geri aðrir betur.
Gullmolarnir halda áfram að hrynja en mamma mín er ekki alveg jafn dugleg að muna þá og oft áður, það er búið að vera svo óskaplega mikið að gera hjá henni. Hún var nefnilega að flytja restina af dótinu okkar um helgina og svo er hún líka að undirbúa sig undir söngprófið sitt sem verður á föstudaginn.
Núna ætlum við að fara í Borgarnes og gista hjá ömmu og afa sem mér finnst nú frekar skemmtilegt og á fimmtudaginn fer ég svo til Reykjavíkur til pabba labba lú. Veiiiiiiii hvað það verður gaman.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home