sunnudagur, september 02, 2007

Sumarfríið

Kátir bræður fyrstu nóttina í fellihýsinu
Ég er nú barasta lítið sem ekkert búinn að segja ykkur frá sumarfríinu í ár. Það var nú aldeilis skemmtilegt. Við fórum sko í langt ferðalag. Við byrjuðum á því að fara nokkra daga í útilegu á Vesturlandið. Þar gistum við fyrstu nóttina á Laugum í Sælingsdal. Þar var fínt að vera og góð sundlaug en lítið annað við að vera svo við pökkuðum saman og skelltum okkur í Hólminn þar sem var mikið líf & fjör.Egill Orri á harðasprettiMarteinn á fljúgandi ferð

Sætir bræður við NarfeyrarstofuEftir þessa þriggja daga ferð fórum við aftur til Reykjavíkur og ég fékk að fara með Matta & Helgu í flugvél norður á Akureyri og gista þar í 3 nætur!! Það var ekkert smá skemmtilegt (þó fregnir hermi að samkomulagið milli okkar bræðranna hafi ekki alltaf verið með besta móti) og ég fékk að fara í sveitina þar og allt mögulegt skemmtilegt. Svo komu mamma og pabbi að sækja okkur og við fórum beint í Mývatnssveitina til Elvars Goða og Önnu Marý sem er alltaf gaman og svo er líka svo fallegt á Mývatni.
Bröltarinn ég lenti reyndar í smá slysi sem kallaði á pínulítinn útúrdúr til Húsavíkur en ég stóð mig eins og hetja hjá lækninum og lét þetta ekkert á mig fá.

Næst lá leiðin á Egilsstaði (nema hvað?!) og þar heimsóttum við m.a. hið mjög svo fallega Skriðuklaustur.


Æi við erum nú soldið luralegir á þessum gammósíum :)
Við fórum líka upp að Kárahnjúkum sem var nú frekar mikil tímasóun því þegar hér var komið var brostið á ekta íslenskt sumarveður, það er að segja rigning & súld svo hvorki sást í virkjun né lón. Næsta stopp var því gert í fjörunni við Lagarfljótið þar sem við rákumst á Orminn sjálfan (sem við sórum þó að væri bara plat).
Ormurinn "ógurlegi"


Eftir viðkomu hjá Óla Sveinmari & Andreu lá leiðin næst á Djúpavog. Það fannst mömmu fallegur bær og þar er flott tjaldsvæði sem við mælum með. Umlukið klettum sem er gaman að príla í. Svo er það líka stutt frá höfninni og okkur bræðrum finnst nú ekkert leiðinlegt að skoða bátana.Við Djúpavogshöfn


Eftir þetta lá leiðin meðfram suðurströndinni og við stoppuðum víða, m.a. fengum við aðeins að fara á fjórhjólið okkar. Það var hægt að rífast svolítið um það og fara aðeins í fýlu en þegar hér var komið voru mamma&pabbi orðin frekar vön svoleiðis veseni og létu það nú ekkert á sig fá. Næst fengum við okkur svo ís í Freysnesi og svo stoppuðum við nú aldeilis á skemmtilegum stað - Jökulsárlóni - þetta fannst okkur stórmerkilegur staður og langaði mest til að vaða út í og príla á þessum stóru ísjökum sem eru mörg þúsund ára gamlir.
Það má meira að segja sigla á lóninu og einhvern tíma ætlum við að gera það. Kannski næsta sumar?

Því næst sagði pabbi okkur frá því að einu sinni hefði mjög mikið eldgos orðið undir Vatnajökli (jökullinn sem lónið rennur úr) og það hefði brætt svo mikinn ís að ein risastór brú sem var yfir Skeiðará hún bara brotnaði öll í klessu og mokaðist með vatninu, ísnum og sandinum lengst út í sjó. Þetta fannst okkur merkilegt og enn merkilegra að fá að stoppa til að príla á þessum búti úr henni sem enn stendur á sandinum.Pabbi að lesa sér til um eldgosið
Prílukettir á brúarsporði
Áfram hélt för og við gistum loks á Kirkjubæjarklaustri á öðru frábæru tjaldsvæði. Rétt áður en við komum á Klaustur stoppuðum við á þessum stað sem mömmu finnst svo fallegur, hann heitir - Dverghamrar á Síðu - og þar gátum við líka prílað svolítið.


Svalir bræður með sólglerauguEgill Orri djúpt hugsi á Dverghömrum

Eftir Klaustur lá svo leiðin í Kotið til ömmu & afa þar sem okkur var rækilega spillt og lentum í ýmsum ævintýrum, svosem að missa "skessjers" skóinn hans Matta í lækinn og láta ömmu og pabba vaða út og suður að leita að honum. Það voru samt þreyttir litlir bræður sem komu heim til sín sunnudaginn 5. ágúst eftir mjög svo viðburðarríka og skemmtilega ferð.

2 Comments:

Blogger Inga Lara said...

va ekkert sma ferdalag og flottar myndir af ykkur.

5:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

þú ert mesti töffarinn þarna á neðstu myndinni, vá næstum kominn á gelguna bara... scary!!!!

3:01 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home