föstudagur, desember 29, 2006

Nýtt ár alveg að bresta á...

... og mamma mín hefur ekki frá mér sagt í marga daga. Þvílíkur skandall. Það er svosem ekki mikið af mér að frétta heldur. Ég er að nálgast það ansi hratt að vera óalandi og óferjandi eins og við var kannski að búast eftir langverandi fjarveru frá öguðu umhverfi leikskólans. Nú styttist hins vegar í að ég byrji á Regnboganum og fer þar á Grænu deild. Því er ekki að neita að hún móðir mín hlakkar býsna til.
Nú loksins kom dótið okkar til Íslands og ég fékk að fara með mömmu upp á Skaga að sækja það. Þar hitti ég loksins Leó vin minn og þar urðu nú heldur betur fagnaðarfundir. Síðan þá er hann búinn að eignast lítinn bróður sem við ætlum að fara að skoða á morgun. Sá held ég nú að verði lítill og 'vitlaus' (þ.e. að segja bróðirinn, ekki Leó)
Svo komu náttúrulega jólin í allri sinni dýrð og ég "fékk" að opna alla pakkana í Hraunbænum hjá afa og ömmu (ég spurði reyndar ekkert mikið að því ég bara reif þá upp þar sem ég stóð á miðju gólfinu). Mömmu þótti nú reyndar orðið nóg um þegar ekki lengur mátti lesa á pakkana og umbúðapappírinn þyrlaðist svoleiðis í kringum mig að varla sást í mig. Flottasta jólagjöfin í ár var án efa fjórhjólið frá pabba og mömmu. Við Matti fengum það saman og höfum fengið að prófa það bæði í Borgarnesi og úti á kirkjuplani heima í Árbænum. Okkur leiðist þetta nú ekki mikið þessi græja og pössum okkur að vera afskaplega hlýðnir að fara ekki of hratt því þá slökknar á því segir pabbi (já já ef hann notar á það fjarstýringuna sem við vitum ekki að er til).
Annars erum við bræður búnir að vera mikið saman í desember og fyrir mestan part afar góðir. Upp á síðkastið ber þó á einhverri þreytu í sambandinu og við í auknum mæli farnir að kvelja hvorn annan, hrinda og klípa. Voðalega þreytandi finnst mömmu sem finnst húsið okkar aðeins of lítið fyrir eltinga- og hrinduleiki.
En þar sem litlar líkur eru til að meira verði skrifað á síðuna á þessu ári þá óska ég öllum sem þetta lesa hamingju- og gæfuríks árs með þökk fyrir liðið.
Stórt knús - Egill Orri

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Langar að óska þér gleðlilegs árs og þakka þér fyrir öll prakkarastrikin en frásagnir mömmu þinnar af þeim hafa oft létt mér lundina ;)

B. kv. Sóley Björt (vinkona Maj-Brittar)

9:53 e.h.  
Blogger Sigrún said...

Takk sömuleiðis Sóley, bestu kveðjur til fjölskyldunnar þinnar.

1:15 e.h.  
Blogger Maja pæja said...

Elsku Egill Orri minn, þú gerir líf mitt svo miklu skemmtilegra.. gleðilegt nýtt ár.. mikið er nú gott að vera búin að fá þig aftur á klakann ;)

3:55 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home