mánudagur, október 30, 2006

Tölvuleysi

Þó ég hafi nú fengið að gera ýmislegt skemmtilegt um helgina þá voru tölvuleikir ekki eitt af því. Ég náði mér í 'straff' í þeim efnum með því að kalla móður mína hálfv*** á föstudaginn. Ekki veit kellingin hvar ég lærði þetta orð en hún var nú ekki par sátt að ég væri að taka mér það í munn. Þannig að tölvuforréttindin voru snarlega af mér tekinn þrátt fyrir að ég hafi með miklum grát og auðmýkt reynt að biðjast afsökunar. Henni varð ekki haggað.
Þrátt fyrir þetta fékk ég nú að fara í sögu- og leikstund á bókasafninu á N-Fäladen á laugardagsmorguninn. Það var ógurlega gaman og ég heyrði sögur, leikrit, fór í leikrit og föndraði frá kl. 10 til kl. að verða eitt. Eftir það fékk ég meira að segja að fara á MacDonald's - þannig að það er spurning hvort 'lexían' með tölvubannið hafi náð fram að ganga. Nú svo lék ég náttúrulega við Leó vin bæði laugardag og sunnudag. Á laugardaginn lékum við okkur inni í herbergi hjá Leó í næstum því 7 klukkutíma!! Já það verður nú heldur betur tómlegt hjá mér þegar hann Leó flytur heim til Íslands í byrjun desember.
Í gær fór mamma svo með okkur Leó í bíó að sjá mynd sem heitir á sænsku "Vilddjuren". Þar sem við sátum á MacDonald's á laugardaginn og lásum bíóauglýsingarnar þá heyrist í mér
"mamma, hvað heitir þessi mynd á Íslandi?"
"Ég bara veit það ekki ástin mín"
"geturðu ekki spurt mömmu þína og pabba?"
"Þau myndu nú alveg örugglega ekki vita það kallinn minn"
"Nei, bara pabbi minn veit það. Því hann á bíó. Við eigum ekkert bíó svo við getum ekki vitað það"
já já hann pabbi minn er sko stórkall í bíóbransanum heima greinilega, skyldi Árni Sam. vita af þessu?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home