sunnudagur, október 16, 2005

Dýragarðurinn

Loksins kom hinn langþráði nammidagur í gær og við fórum yfir stóru brúna alla leið til Kaupmannahafnar og fengum að fara í dýragarðinn eins og áður sagði. Ótrúlega gaman alveg hreint. Fengum að fara á hestbak á svona litlum pony-hestum og sáum helling af dýrum. M.a. Sebrahesta, ljón, blettatígur, gíraffa, skógarbirni, fíla, antilópur, lamadýr, úlfalda, kengúrur, nashyrning, tígrisdýr, mörgæsir, seli, hreindýr, jakuxa, hesta, kanínur, grísi og fl. Svo var risastór róluvöllur og margt fleira skemmtilegt. Mamma ætlar að setja myndir inn á síðuna okkar fljótt fljótt.
Þegar við komum að ljónagryfjunni voru nú flest ljónin flatmagandi í sólinni en þegar nær kom sá maður að þau voru að éta það sem var augljóslega hræið af sebrahesti. Nema hvað, Matta bróður mínum leist nú ekkert á þetta og kallaði "Egill, sjáðu þeir eru að éta Martein sebrahest!" [þeir sem hafa séð Madagascar fatta hvað við er átt]. Mömmu fannst þetta nú líka soldið stór skammtur af 'raunveruleika' að sýna okkur hvað ljónin éta í beinni.
Eftir að við vorum búnir í dýragarðinum vorum við orðnir svangir og þreyttir svo við komum við og fengum okkur að borða. Veitingastaðurinn var í risastóru molli þar sem meðal annars var bíó. Við byrjuðum auðvitað strax að suða um að fara þangað
Egill Orri: Ég VIL fara í bíó
Mamma: Egill minn, það er engin mynd að byrja nema Madagascar
Egill Orri: En ég vil sjá hana
Pabbi: Nei, þú ert búin að sjá hana 4 sinnum
Egill Orri: En mér finnst hún svo skemmtileg, ég vil sjá hana aftur
Pabbi: Egill minn, hún er á dönsku
Egill Orri: En mig langar svo að læra dönsku.
Mamma mín heldur að ég sé mögulega fyrsta barn í heiminum til að nota þessa setningu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home