fimmtudagur, apríl 14, 2005

Sund

Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara í sund. Gæti gert það daglega ef mamma mín myndi leyfa mér það. Í dag var því sérlega gaman að fá þær fréttir þegar mamma kom að sækja mig að við værum að fara alla leið í Borgarnes í sund. Þvílík gleði. Fyrst fóru mamma og Maj-Britt samt í ræktina smástund svo ég fór með ömmu á Shell og svo í Bónus þar sem ég stal (venju fremur) einum pakka af Púkum. Kom með þá til ömmu sem tók heldur betur eftir því að ég var með eitthvað í vasanum, þrátt fyrir að ég þverneitaði fyrir það. Þegar ég var svo spurður að því af hverju ég væri að stela og að það mætti ekki þá sagði ég bláeygður "en amma! ég hélt þú myndir segja nei" fullkomlega eðlileg skýring ekki satt :) Annars má auðvitað ekki vera að brosa að þessu, það er háalvarlegt mál að ég sé að stela þegar ég fer í búðir. Mamma mín er svosem búin að reyna að útskýra fyrir mér alvarleika þess að gera svona en ég þykist ekkert skilja í þessu. Enda þegar mamma fékk að heyra af þessu uppátæki mínu í dag þá sagði ég með fallegasta brosinu mínu "en mamma ég bara vissi þetta ekki" og lofaði að svo búnu að ég myndi aldrei gera þetta aftur. Hmmm mamma mín leggur því miður ekki mikinn trúnað í þau orð mín.

En hvað um það, ég var alveg hreint óskaplega úrillur á leiðinni heim, vældi og volaði þar til ég sofnaði loksins um það bil við Bauluna en varð svo brjálaður þegar mamma vakti mig heima á Bifröst. Ég fékk grillaðar pulsur í kvöldmatinn (sem ég vældi mig í gegnum líka) fylgdist hálfpartinn með Strákunum á Stöð2. "þessir strákar eru bara strákar sem eru að vinna með pabba mínum á Stöð2" lýsti ég yfir og bætti svo við "en þeir eru nú hálfgerðir óþekktarpjakkar". Ég veit nú ýmislegt.

Nú er ég steinsofnaður inni í rúmi, rumska samt reglulega og tala upp úr svefni. Obboðslegt vesen á mér núna :)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home