þriðjudagur, janúar 16, 2007

Sveitaferð

Um helgina fórum við fjölskyldan norður til Akureyrar að hitta Matta bróður minn. Það urðu nú aldeilis fagnaðarfundir þegar við hittumst og mikill æsingur yfir því að vera að fara í sveitina til Jóa. Við fengum auðvitað að fara í fjósið og sjá hvernig allt gengi fyrir sig þar. Ómissandi hjálparsveinar þar á ferð.
Á laugardeginum var svo ferðinni heitið í Hlíðarfjall og ég fékk að fara á skíði í fyrsta sinn. Vældi nú mikið yfir veðri (og aðallega vindum) og gafst fljótlega upp. Fannst þetta nú bara ekkert skemmtilegt og kunni ekkert að athafna mig með þessar "spýtur" á fótunum. Við mamma og Matti fórum því inn í skála og fengum okkur að borða meðan pabbi skíðaði með Halla og Mumma frændum mínum. En svo birti til og þá vildum við ólmir fara út aftur. Í þetta sinn gekk þetta nú frekar vel og við vorum orðnir býsna þornir að renna okkur einir. Sérstaklega Matti sem "var miklu betri en ég" að eigin sögn. Ég var nú ekki par hrifinn af því að litli bróðir væri betri í einhverju en ég en tók þeim rökum að maður þyrfti að æfa sig og að Matti væri búinn að fara í kennslu sem gæfi honum auðvitað forskot.
En á leiðinni heim náði ég mér niðrá honum þegar fjósamennskan barst í tal.
*****************
Egill Orri: Matti? Kannt þú að mjólka kýr?
Matti: Jahá!
Egill Orri: Nei þú kannt það ekkert, þú ert alltof lítill. Bara ég veit hvernig maður mjólkar. Maður togar bara í "spennurnar" sem eru undir kúnum. Men Jói getur ekki mjólkað 'áns' mín því það er svo erfitt. Nema bolann, því hann er bara með eina "spennu"!
*****************
Já ég læt nú Matta ekkert eiga neitt inni hjá mér!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home