föstudagur, mars 03, 2006

Átvagl

Í morgunmat er ég búinn að borða hvorki meira né minna en 4 steikt egg, eina litla jógúrt, stórt glas af eplasafa og fullt fullt af vínberjum. Að auki tók ég svo auðvitað lýsið mitt og latabæjarvítamínin sem Matti og Helga sendu mér. Svona get ég verið duglegur að borða en nú finnst mömmu minni komið gott og segir stopp þegar ég er að suða um epli.
---- ---- ---- ---- ----
Í gær þegar við fórum á flugvöllinn með ömmu fórum við mamma á Burger King. Með máltíðinni fékk ég eitthvað agalega flott dót sem skýtur svona skífum og fékk að leika mér með það í lestinni á leiðinni heim. Nema hvað þrátt fyrir aðvaranir og tilskipanir móður minnar um að það megi aldrei og alls ekki skjóta á fólk þá gerði ég það nú, skaut móður mína beint á milli augnanna. Henni var ekki skemmt kellingunni og gerði dótið upptækt hið snarasta. Sama hvernig ég vældi og suðaði, baðst fyrirgefningar og iðraðist var hún óhagganleg og ég fékk ekki dótið mitt. Eftir smástund ákvað ég að reyna að skrúfa frá tárunum, skreið upp í fangið á mömmu minni og sagði "Það má ekki vera svona vondur við litla stráka" Mömmu fannst ekki mikið til þessa leikrits koma og svaraði "Nú?! Af hverju ekki" Það stóð ekki á svarinu "Af því þeir geta bara dáið úr sorg".
Þess má geta að um daginn mátti ekki kyssa svona litla stráka - því þá gætu þeir dáið.
----
Já þau eru margvísleg banameinin á þessum viðkvæma aldri.

1 Comments:

Blogger Inga Lara said...

Inga fraenka er alveg sammala mommu thinni: thad ma aldrei skjota folk.
Thu hlytur ad vera ad staekka a hverjum degi thegar ad thu bordar svona mikid.

8:07 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home