þriðjudagur, mars 21, 2006

Að læra af reynslunni

Það er nú heldur betur sprækur strákur sem stökk á fætur i morgun kl. 07.30 og fór fram til að horfa á Bolibompa (hin sænska Stundin okkar). Ég átti erfitt með að skilja af hverju við mamma gátum ekki farið út í sólina (JÁ SÓLINA) að gera eitthvað skemmtilegt þar sem ég var ekki lengur með hita. Mamma reyndi að útskýra fyrir mér að maður verði að vera einn dag hitalaus heima svo manni slái ekki niður. "Það er ljótt að slá" sagði ég alvörugefinn við þessari skýringu. "Hver slær mann?" - æi stundum skortir mömmu mína getu til að útskýra fyrir mér allt sem rennur í gegnum þennan litla haus minn.
***
Nú þar sem ég er fullur orku þarf ég náttúrulega að færa aðeins til sófasettið í stofunni og brölta upp á því og láta mig detta í sófann. Þetta gekk á nokkra stund þar til mamma mín heyrði heljarinnar dynk og kom hlaupandi fram. Þar lá ég hálfvankaður á stofugólfinu og hafði hentst á hausinn ofan af sófabakinu og lent á hörðu gólfinu. Æ Æ Æ æææ þetta fannst mér nú ekki gott og var fljótur að kenna bæði sófanum og gólfinu um ófarir mínar. Það leið nú engu að síður ekki á löngu þar til ég var aftur tekinn upp á prílinu. Þá sagði mamma ströng á svip "Nú skaltu læra af reynslunni og hætta þessu brölti áður en þú meiðir þig aftur".
[hugs] ... [hallað undir flatt]
"Mamma, ég skal læra það á morgun. Ég lofa!"

2 Comments:

Blogger Inga Lara said...

Best ever comment, eg held eg aetli lika ad tileinka mer thetta.....

9:33 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Elsku karlinn minn,ekki hefur hugarflugið breyst mikið síðan á Englakoti,alltaf jafn fljótur að lofa þó það loforðin lendi stundum upp í ermunum þínum :)Sakna þín þegar ég les bloggið þitt,vonandi manstu pínulítið eftir mér.Kveðja til mömmu og knús til þín frá Jóu

4:46 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home