fimmtudagur, janúar 26, 2006

Úrilli strákurinn

Ég var hvorki alandi né ferjandi í gær - hvorki í leikskólanum né heima hjá mér eftir hann - mamma mín hallast að því að ég hafi bara verið svona óskaplega þreyttur. Amk sofnaði ég fyrir klukkan 8 í gærkvöldi og vaknaði í þessu líka fína skapi í morgun. Lyfti upp náttfatatreyjunni minni svo skein í beran magann lagðist ofan á andlitið á sofandi móður minni og spurði hátt og snjallt 'Mamma! hlustaðu hvað mallinn vill í morgunmat'. Móðir mín vissi ekki alveg hvaðan sig stóð á veðrið og var ekkert of hress með þessa vakningaraðferð en giskaði fyrir rest á hafragraut með rúsínum. Nei ekki var'ða það sem maginn var að segja. 'Giskaðu aftur' sagði ég og fannst þetta allt hið fyndnasta mál 'Hrærð egg með tómatsósu?' skaut mamma á og hafði rétt fyrir sér í þetta sinn. Svo linnti ég ekki látunum fyrr en ég fékk 'eftirrétt' eftir morgunmatinn sem var kaldur jarðaberjagrautur með mjólk. Ég hef ískyggilega matarlyst þessa dagana
Akkúrat núna er Leó vinur minni heimsókn og við erum að horfa á Ævintýri í Andabæ og erum búnir að innbyrða 2 appelsínum, 2 perum (á mann) einu epli og einum banana. Mamma hefur sko ekki undan þessa dagana að bera ávextina heim úr Willy's. Samt skárri kostur en væl um sælgæti ekki satt?
Annars skein sólin glatt hérna í Lundi í dag og snjórinn er hratt að breytast í slabb og drullu. Ég fór nú samt á snjóþotunni í leikskólann í morgun og heimtaði að láta draga mig eftir berum göngustígnum þrátt fyrir aðvaranir móður minnar um að þetta myndi skemma hana. Ég hef yfirleitt frekar ákveðnar skoðanir á hlutunum en það kemur fyrir að ég 'kaupi' röksemdarfærslur móður minnar - ekki oft en það kemur fyrir :)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home