fimmtudagur, mars 31, 2005

Ammmæli

Í dag var góður dagur. Eftir leikskóla fékk ég að fara í afmæli hjá Gísla Má vini mínum sem er með mér á Álfakoti og það var rosalega gaman. Ég fékk sleikjó og nammiköku og sagði stoltur frá því heima hjá mömmu.
Annars er ég aftur farinn að ljá máls á því að vilja fara til Svíþjóðar, aðallega kemur það til af því að mamma mín prentaði út mynd af "nýja" leikskólanum mínum sem heitir Sagostunden og mér finnst voðalega spennandi að skoða hana. Svo sagði mamma mér líka að þegar ég flyt til Svíþjóðar þá verði nú ekkert mál að fara að heimsækja litla frænda í Danmörku, við förum bara beint upp í lest og beint til litla frænda. Mjög merkilegt.
Um helgina fer ég til pabba labba míns sem verður svakalega gaman og þá hitti ég líka hann Martein bróður minn. Ég ber honum að vísu ekki mjög vel söguna þessa dagana. Hann er eitthvað voðalega óþekkur að mér finnst, bítur og slær og rífur allt dótið mitt. Mamma mín leggur ekki endilega eins mikinn trúnað á þessar sögur og ég myndi vilja en ég held fast við mitt. Til dæmis er ég ófáanlegur til að vilja taka myndina af leikskólanum með til pabba því þá á Matti eftir að rífa hana og ég vil heldur ekki taka með nýju bókina mína því Matti á eftir að rífa hana. Alveg sama hvað mamma segir mér að pabbi muni ekki leyfa honum það þá trúi ég því nú ekki neitt. Smá systkinarígur er nú fullkomlega eðlilegur.
En í dag gerðist líka soldið sorglegt þegar hann Guðmundur langafi minn dó. Ég hafði ekki hitt hann mjög oft en hann var mjög góður kall. Núna er hann samt hjá Guði og þar líður honum vel. Blessuð sé minning Guðmundar afa míns.

1 Comments:

Blogger Maja pæja said...

Já honum líður ábyggilega vel þarna uppi hjá karlinum með skeggið :-) en voðalega verður kósý hjá þér í nýja leikskólanum hí hí hí

10:19 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home